Einn þingmaður smitaður og fjórir í sóttkví

Mynd með færslu
 Mynd: Birgir Þór Harðarson - RÚV
Forsætisráðherra er komin í tímabundna sóttkví þar til niðurstöður úr sýnatöku liggja fyrir. Tveir til viðbótar eru í sóttkví og umhverfisráðherra. Fyrsti þingmaðurinn hefur verið greindur með COVID-19, Smári McCarty pírati. Alþingi ræðir í dag frumvörp um aðgerðapakka ríkisstjórnarinnar og frumvarp um borgaralega skyldu opinberra starfsmanna til að gegna störfum í þágu almannavarna á hættustundu.

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra sagði frá því á Facebook stuttu fyrir hádegi að hún hefði verið send í sýnatöku því smit hafi greinst í bekk sonar hennar. Hún yrði því í sóttkví þar til niðurstaða fengist.

Fyrsti þingmaðurinn hefur nú greinst með COVID-19, Smári McCarthey Pírati, en auk hans hafa sex starfsmenn Alþingis smitast. Minnst tveir þingmenn eru í fyrirskipaðri sóttkví, þar af helmingur af þingflokki Viðreisnar, því Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir og Hanna Katrín Friðriksson eru báðar í sóttkví vegna þess að sameiginleg vinkona þeirra greindist með veiruna. En Guðmundur Ingi Guðbrandsson umhverfisráðherra er það einnig því samstarfsmaður hans í ráðuneytinu greindist.

Skrifstofa Alþingis tilkynnti um það að fjöldi þingmanna og starfsmanna í þingsal verður takmarkaður og mælst er til þess að einungis þeir þingmenn sem þurfa að taka þátt í umræðum séu í Alþingishúsinu. Þá voru þingnefndir hvattar til þess að nýta sér fjarfundabúnað.

Mælt fyrir aðgerðum ríkisstjórnarinnar

Í dag mælti fjármálaráðherra fyrir frumvarpi um breytingar á þeim lögum sem tengjast þeim aðgerðum sem kynntar voru á laugardaginn. Þetta er svokallaður bandormur, sem er frumvarp um breytingu á öllum þeim lögum sem tengjast aðgerðunum. Einnig er frumvarp þar sem sveitarstjórnarkosningar í nýsameinuðu sveitarfélagi á Austurlandi eru afturkallaðar.

Þá er frumvarp sem kveður á um borgaralega skyldu opinberra starfsmanna að  gegna störfum í þágu almannavarna á hættustundu. Opinberum aðilum er með því heimilt að fela starfsmönnum tímabundið breyttar starfsskyldur til þess að sinna verkefnum sem hafa forgang á hættustundu. Gert er ráð fyrir að umræðum ljúki í dag og málið fari síðan til meðferðar í nefndum.

Eins og gefur að skilja eru óvenju fáir í húsi og búið að breyta umgengnisreglum eins og á mörgum öðrum vinnustöðum til þess að draga sem mest úr líkum á smiti og nú koma ekki lengur áhorfendur á palla. Fólk er almennt mjög rólegt en tekur öllum tilmælum alvarlega, og reynir að passa fjarlægðir og sprittar sig við hvert tækifæri. 

sigridurda's picture
Sigríður Dögg Auðunsdóttir
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi