Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Einn og einn villist af leið

06.03.2018 - 20:00
Mynd: Kveikur / RÚV
Í útjaðri Poznan eru höfuðstöðvar samtaka sem heita Barka. Það mætti eiginlega segja að Barka-samtökin séu einskonar griðastaður þeirra sem hafa átt erfitt uppdráttar í samfélaginu. Þeirra sem hafa verið heimilislausir, í neyslu, í fangelsum, eða af einhverjum ástæðum verið á jaðri samfélagsins.

Það eru um það bil fjórtán þúsund Pólverjar á Íslandi. Flestir koma til að vinna og flestum gengur vel – en eins og gengur og gerist fatast einum og einum flugið.

„Villtumst allir af leið“

Piotr, sem er reyndar alltaf kallaður prófessorinn, kom til Íslands fyrir tólf árum. Fyrst vann hann fyrir sér með því að bera út Fréttablaðið. Svo vann hann á veitingastöðum og loks í byggingavinnu. „Ég var kennari í Póllandi. Ég var kennari við Slesíu-háskóla. Ég var að vinna með fötluðum börnum. Ég er listamaður að mennt,“ segir hann. „Ég er mjög gáfaður maður, mjög klár, en ég á við tilfinningaleg vandamál að stríða.“

Annar pólskur karlmaður sem býr í Gistiskýlinu í Reykjavík tekur undir. „Enginn okkar hér er heimskur, en við bara villtumst allir af leið. Þó að þig vanti tönn, eða þú hafir týnt sjálfum þér, þá þýðir það ekki að það eigi bara að afskrifa þig,“ segir hann. „Ég kom til að vinna. Ég var að vinna en svo villtist ég af leið. Ég er háskólamenntaður. En vitið þið hvernig mér líður? Mér líður eins versta róna.“

Það mætti eiginlega segja að það sé einmitt það sem rammar inn sjónarhorn Barka-samtakanna; að allir eigi sér viðreisnar von. Jafnvel þótt þeir villist um stund. Jerzy Stuglik er lifandi dæmi um það en hann var heimilislaus í London árum saman en vinnur nú við að aðstoða heimilislausa í Reykjavík.

Hefur sjálfur reynsluna

„Ég þekki lífið á götunni vel. Og veit að það er alls ekki einfalt,“ segir Jerzy. „Ég veit að þessi útrétta hjálparhönd er fólki nauðsynleg og margir þiggja hana. Mér líður vel með að geta hjálpað. Á einhvern hátt er ég að greiða upp skuld mína. Af því að einu sinni var mér hjálpað.“

Magda og Jerzy eru dæmi um það hvernig Barka-samtökin vinna almennt; í tveggja manna teymi leiðtoga og aðstoðarmanns. Leiðtoginn hefur sjálfur reynslu af því að vera á götunni, aðstoðarmaðurinn er háskólamenntaður sérfræðingur; til dæmis sálfræðingur eða félagsráðgjafi.

Ewa segir að fyrir tilstilli Barka-leiðtoganna hafa margir snúið aftur heim. „Frá Íslandi til Barka. Og margir hafa byggt upp líf sitt að nýju. Farið í gegnum afeitrun og meðferð,“ segir hún.

Engin úrræði á pólsku

Jóna Guðný Eyjólfsdóttir er deildarstjóri á velferðarsviði Reykjavíkurborgar og félagsráðgjafi. „Við fórum út í þetta samstarf vegna þess að í Gistiskýlinu vorum við komin með hóp erlendra ríkisborgara sem voru langtímanotendur og okkur skorti einfaldlega verkfæri til að hjálpa þeim,“ segir hún um upphaf samstarfsins.

Hún útskýrir að á Íslandi séu engin merðferðarúrræði sem fari fram á pólsku. „Þessi hópur var að glíma við alvarlegan heilbrigðis- og félagslegan vanda. Þannig að það vantaði eitthvað til að þjónusta þennan hóp betur,“ segir Jóna.

Og þá voru Barka-samtökin kölluð til. Jerzy og Magdalena Kowalska, kölluð Magda, eru útsendarar þeirra á Íslandi. „Mörgum hefur tekist vel til enda búa margir Pólverjar hér. En það gildir ekki um alla. Við vinnum með þeim, sem hefur ekki tekist vel til,“ segir Jerzy.

Magda útskýrir að ef fólk tali ekki íslensku þá sé engin meðferð í boði. „Það eina sem þeim býðst er þetta fyrsta skref. Sem er afeitrun,“ segir hún. „Sem er allt annað en almennileg meðferð.“

Barka býður þeim sem vilja aðstoð við að komast heim til Póllands í meðferð.

Frá Reykjavík til Póllands

Marian Urbas er einn þeirra sem þekktist boð Barka-samtakanna um aðstoð, eftir að hafa verið heimilislaus í Reykjavík lengi. „Til að byrja með gekk mér mjög vel. Ég var með vinnu. Ég fékk vel borgað,“ segir hann.

„En síðan þegar ég var búinn að missa vinnuna tvisvar, þrisvar, var ég orðinn of gamall til að finna mér starf. Þegar ég missti vinnuna þá missti ég íbúðina. Ég lenti á götunni. Ég byrjaði að drekka. Ég féll mjög djúpt en ég hitti fólkið frá Barka og þau tóku mig að sér.“

Marian býr nú í einu af mörgum samfélögum sem rekin eru undir merkjum Barka-samtakanna í Póllandi.

Lengri og ítarlegri umfjöllun Kveiks um málið má sjá í spilaranum hér að ofan.

sigridurh's picture
Sigríður Halldórsdóttir
dagskrárgerðarmaður