Athugið þessi frétt er meira en 11 ára gömul.

Einn milljarð króna fyrir jörðina

28.08.2011 - 19:26
Kínverski fjárfestirinn, Huang Nubo, er tilbúinn til að greiða einn milljarð íslenskra króna fyrir jörðina Grímsstaði á Fjöllum. Innanríkisráðherra segir málið nátengt umræðunni um nýtingu auðlinda og vill að löggjöf þar að lútandi verði tekin til gagngerrar endurskoðunar.

Kínverski fjárfestirinn, Huang Nubo, hefur ekki sótt um undanþágu frá lögum um eignarhald fasteigna til innanríkisráðherra. Ráðherra segir að málið verði skoðað þegar þar að kemur en mikilvægt sé að fara í heildarendurskoðun á lögunum.

Huang Núbó þarf að fá samþykki íslenskra stjórnvalda fyrir kaupunum en samkvæmt lögum mega þeir sem eiga heima utan evrópska efnahagssvæðisins ekki eiga jarðir hér á landi nema óska eftir undanþágu frá lögunum.

Huang stofnaði fyrirtæki sitt, Zhongkun árið 1995. Fyrirtækið hefur vaxið hratt en það sérhæfir sig í fasteignaviðskiptum og ferðaþjónustu. Það hefur meðal annars fjárfest í Bandaríkjunum, Japan og víðar.

Sem dæmi má nefna að árið 2003 byggði fyrirtækið verslunarmiðstöð í Los Angeles, keypti þúsund hektara bújörð í Nashville, Tennessee og reisti kínversk setur í New York fyrir 73 milljónir dollara.

Þá stofnaði Huang menningarsjóð hér á landi í fyrra og lagði til eina milljón bandaríkjadala í sjóðinn sem jafngildir ríflega hundrað og þrettán milljónum króna.

Huang Nubo er mikill útivistarmaður og hefur farið víða, meðal annars á Norðurpólinn. Með honum í för þá voru auk annarra, þeir Ragnar Baldursson, sendiráðsritari í Kína og Hjörleifur Sveinbjörnsson, fyrrverandi skólafélagi Huang. Hjörleifur er eiginmaður Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur, fyrrverandi utanríkisráðherra.

Huang hyggst reisa lúxushótel á Grímsstöðum á Fjöllum. Jörðin hefur verið auglýst til sölu um nokkurt skeið á heimasíðunni www.grimsstaðir.com. Henni hefur nú verið lokað.

Hann bauð þrjár milljónir króna fyrir hver 0,3% af jörðinni. Það þýðir að fyrir alla jörðina er hann tilbúinn til að greiða einn milljarð króna.