Athugið þessi frétt er meira en 10 ára gömul.

Einn handtekinn í mótmælum - myndir

11.07.2012 - 16:49
Mynd með færslu
 Mynd:
Einn karlmaður var handtekinn í mótmælum við sendiráð Rússlands nú á fimmta tímanum, en þar höfðu verið skipulögð samstöðumótmæli til stuðnings meðlimum pönkhljómsveitarinnar Pussy Riot.

Um fimmtíu manns höfðu safnast saman fyrir utan sendiráðið og hrópuðu slagorð til að krefjast þess að konurnar sem hafa verið í gæsluvarðhaldi í Rússlandi frá því í mars, verði látnar lausar.

Lögregla var mætt á svæðið áður en mótmælin hófust en aðhafðist ekki fyrr en nokkrir úr hópi mótmælenda tóku niður fánann við sendiráðið og drógu lambhúshettu að húni þess í stað.

Í tilkynningu frá lögreglu segir að rúmlega tvítugur karlmaður hafi verið handtekinn - hann hafi veist að lögreglumönnum þegar þeir höfðu afskipti af öðrum mótmælanda sem hafi ætlað að draga „einhverja dulu upp í flaggstöng sendiráðsins.“

Að sögn Snærósar Sindradóttur, eins skipuleggjenda mótmælanna, fóru þau friðsamlega fram en vissulega hafi fólki hitnað í hamsi þegar lögregla greip inn í. Þannig hafi fjöldi fólks verið með börnin sín með sér en farið af vettvangi þegar til handtökunnar kom.

„Enda vill fólk ekki að börnin sín verði vitni að því þegar lögregla snýst gegn samborgurum sínum á þennan hátt, við höfum rétt á að mótmæla og vorum ekkert að gera af okkur.“

Starfsmenn sendiráðsins héldu sig mest innandyra meðan á mótmælunum stóð en fóru svo út og reyndu að ná lambhúshettunni niður úr fánastönginni og báðu lögregluna um aðstoð við að taka lambhúshettur og mótmælaspjöld af girðingunni fyrir framan sendiráðið.

Lögregla rýmdi götuna fyrir framan sendiráðið þar sem fólk hafði safnast saman til að fylgjast með því þegar hinn handtekni var fluttur milli lögreglubíla.

Lögreglumenn aðstoða sendiráðsstarfsmenn við að hreinsa girðinguna fyrir framan sendiráðið