Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Einn á viku settur í síbrotagæslu

25.08.2015 - 19:26
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Hæstiréttur hefur úrskurðað karlmann í síbrotagæslu til 17. september fyrir afbrotahrinu í sumar. Lögreglan tekur að meðaltali einn síbrotamannn úr umferð í hverri viku.

Maðurinn liggur undir grun í þrettán málum sem lögreglan rannsakar. Brotin voru framin frá því í lok apríl og fram til 19. ágúst, þegar hann var handtekinn. Hann er grunaður um að hafa ekið undir áhrifum fíkniefna, um þjófnaði og gripdeild í fjölmörgum verslunum og margt fleira.

Meðal hluta sem hann er talinn hafa stolið eru GoPro-myndavél og heyrnartól úr raftækjaverslun, kveikjarar, hallamál, borvél og matur. Hann varð ítrekað tekinn með fíkniefni og auk þess fannst hnífur og hnúajárn í fórum hans. Maðurinn er einnig talinn hafa stolið að minnsta kosti tíu dúnúlpum úr útivistaverslunum. Allt samkvæmt lista sem fannst í fórum hans, en þar var tilgreint hvar, hvenær og hverju ætti að stela til að greiða fíkniefnaskuldir. Hæstiréttur úrskurðaði manninn í síbrotagæslu en skilyrðin í lögum eru að menn séu virkir í afbrotum, hafi áður hlotið dóm og muni líklega fá óskilorðsbundið fangelsi. Jón HB Snorrason aðstoðarlögreglustjóri og saksóknari á höfuðborgarsvæðinu segir þetta úrræði notað reglulega. 

„Þetta hefur verið mjög virkt úrræði og ég hugsa að jafnaði sé einn einstaklingur tekinn úr umferð með þessum hætti í viku hverri.“

Heimilt hefur verið að taka menn úr umferð með þessum hætti frá árinu 2009 og er slíkum málum hraðað fyrir dómi. Lögreglan telur að síbrotagæsla skili árangri enda sýni afbrotatölfræði að þjófnuðum, skemmdarverkum og líkamsmeiðingum hafi fækkað um 20-30 prósent á síðustu árum. Lögreglan er með lista yfir virka afbrotamenn og þá sem eru nálægt því að uppfylla skilyrði síbrotagæslu.

„Á þessum lista, virkir afbrotamenn, eru að meðaltali 30-40 einstaklingar á hverjum tíma. Um það bil tíu eru síbrotamenn, þar sem lagaskilyrði eru til síbrotagæslu ef þeir verða staðnir að brotum,“ segir Jón HB Snorrason.

Valgeir Örn Ragnarsson
Fréttastofa RÚV