Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Einlífi í Japan

Mynd: EPA / EPA

Einlífi í Japan

31.01.2020 - 10:18

Höfundar

Japanar voru lengst af miklar hópsálir en nú eru einstæðingar orðnir normið. Karókí fyrir einn hefur slegið rækilega í gegn, knæpur og veitingahús gera ráð fyrir einstæðingum í stríðum straumum og þeim fjölgar stöðugt sem búa einir og kjósa að lifa í samræmi við það.

Fyrir um áratug var fátt vandræðalegra en vinaleysi og að borða einn í mötuneytinu þótti hámark niðurlægingarinnar. Fólk borðaði frekar á salerninu en að láta sjá sig eitt og yfirgefið í mötuneyinu. Klósettmatur heitir þetta á japönsku, Benjo meshi. Nú er það Ohitorisama sem gildir, að gera hlutina upp á sitt einsdæmi.

Að vera einn og óháður

Mayumi Asai segir í viðtali við BBC að Ohitorisama sé að gera hlutina einn, fara einn að borða og upplifa hlutina almennt einn og með sjálfum sér, án þess að hafa áhyggjur af því sem öðrum finnst eða vera háður öðrum. 

Einsömlum tekið opnum örmum

Miki Tateishi er barþjónn á Hitori sem er eingöngu fyrir þá sem fara út einir. Hitori merkir einstaklingur eða ein persóna. Tateishi segir að reksturinn gangi mjög vel og svona staðir verði sífellt vinsælli. Þeim fjölgi stöðugt sem eru einir en lengst af hafi verið litið niður á þá sem skera sig úr eða falla ekki inn í hópinn. Nú sé einsömlum tekið opnum örmum og það sé í takt við breyttan tíðaranda.

Frá niðurlægingu í töff lífstíl 

Ohitorisama þýðir eitthvað í líkingu við samkvæmi fyrir einn og í Japan er talað um Ohitorisama-hreyfinguna eða -menninguna. Fólk býr eitt, það ferðast eitt og borðar eitt. Það fer eitt út á næturlífið og þessari nýju menningu vex stöðugt fiskur um hrygg. Undir millumerkinu Ohitorisama má finna mörg hundruð þúsund myndir og umfjallanir sem tengjast þessu einlífi. Á síðustu átján mánuðum hefur einveran breyst úr því að vera niðurlægjandi í að verða töff lífstíll. 

Þriðjungur karókígesta einir á ferð

Veitingastaðir fyrir einstæðinga spretta upp eins og gorkúlur og karókí fyrir einn er nýjasta æðið. Karókí hefur löngum verið ein helsta afþreyingin í Japan. Vinnustaðir og vinahópar hafa flykkst saman í karókí en nú er þriðjungur karókígesta einir á ferð. Karókístaðir eru út um allt og bjóða upp á misstór herbergi fyrir misstóra hópa. Stóru karókíkeðjurnar hafa verið að fækka hópaherbergjum en fjölga einsmannsklefum í takt við breytta eftirspurn. 

Einir blómstra á eigin forsendum

Það sama á við um veitingahús, bari og næturklúbba. Hefðinni samkvæmt var þetta allt miðað við hópa en í seinni tíð er einstaklingurinn sífellt meira í forgrunni. Lögmálið um framboð og eftirspurn er að breyta rótgrónum hefðum í Japan. Mayumi Asai segir að ótrúleg breyting hafi orðið á skömmum tíma, þörfin hafi lengi verið til staðar en nú fái einir loksins að blómstra á eigin forsendum.

Þrengslin og þéttbýlið er gríðarlegt

Fylgispekt, undirgefni og það að tilheyra hópnum er rótgróið í menningu Japans. Í landinu búa 125 milljónir manna og landsvæði sem er minna en Kaliforníuríki. Í ofanálag er fjórir fimmtu hlutar landsins óbyggilegir fjallgarðar svo þrengslin og þéttbýlið er gríðarlegt. Áherslan hefur verið á samfélagsheildina og að falla vel inn í hópinn eða fjöldann. Með samfélagsmiðlum varð einveran enn brennimerktari en á allra síðustu misserum hefur þetta verið að breytast. Einsemdin þarf ekki að vera niðurlægjandi, hún verður sífellt viðurkenndari í samfélagi hópsálanna. Það þurfa ekki lengur allir að eignast fjölskyldu og börn. 

Fæðingum fækkar og þjóðin eldist

Part af breytingunni má rekja til meiriháttar lýðfræðilegrar breytingar. Á síðasta ári fæddust einungis 864 þúsund börn í Japan sem er það minnsta frá því að mælingar hófust árið 1899. Fjórðungur þjóðarinnar bjó einn árið 1995. Árið 2015 var rúmur þriðjungur þjóðarinnar í einbýli og gert er ráð fyrir að hlutfallið verði komið upp í fimmtíu prósent árið 2040. Giftingum hefur fækkað til muna og þjóðin eldist hratt. Ekkjum og ekklum fjölgar ört.

Með nægan tíma og góð fjárráð

Markaðurinn hefur verið að bregðast við þessari þróun og nú er stóraukin áhersla á markaðssetningu fyrir einbúa á öllum sviðum. Það styttist í að helmingur þjóðarinnar búi í einbýli og það er ansi stór markhópur. Fólk með nægan tíma og góð fjárráð.

Frá Benjo meshi til Ohitorisama

Það eru ekki nema tíu ár síðan hugtakið klósettmatur eða Benjo meshi var fyrst notað í Japan. Nú er það samkvæmi fyrir einn eða Ohitorisama sem tröllríður samfélaginu. Þróunin er hröð í Japan en þetta er tilhneiging um heim allan. Sífellt fleiri búa einir og kjósa að lifa einlífi. Sífellt færri kjósa að eignast börn, fólk giftist síðar á æfinni eða alls ekki og hlutfall eldri borgara eykst stöðugt með tilheyrandi fjölgun ekkla og ekkna. Samkvæmt nýjustu rannsóknum er gert ráð fyrir að í heiminum öllum fjölgi þeim sem búa einir um hundrað tuttugu og átta prósent frá aldamótum til 2030. Einlífi verður stöðugt algengara, ekki bara í Japan, heldur heiminum öllum. Þróunin hnígur öll til einlífis.

 

Tengdar fréttir

Erlent

Nauðgun skekur Japan