Einlæg og tilfinningahlaðin – frábær plata

Mynd: Aron Can / Youtube

Einlæg og tilfinningahlaðin – frábær plata

20.01.2017 - 11:54

Höfundar

Aron Can átti eina sterkustu hipp-hopp plötu ársins í fyrra, plata sem er einlæg og tilfinningahlaðin og sker sig að mörgu leyti frá öðru því sem er í gangi í senunni blómlegu. Arnar Eggert Thoroddsen rýnir í plötuna sem er plata vikunnar á Rás 2.

Aron Can vinnur grannt með tilfinningarappið sem hinn kanadíski Drake skóp fyrir margt löngu. Tónlistin er strípað og skuggum bundið hipp-hopp og lagt er upp með einfaldleika og naumhyggju. Taktar eru bassaskotnir og djúptóna og það er Atlanta-keimur yfir, nett „trap“-tilfinning, t.a.m. Future og þessi dökka innilokunartilfinning sem hefur fylgt síðustu plötum hans.

Einlægt

Textar eru á íslensku og þessi árekstur tónlistarinnar, sem er nánast gotnesk (e. goth) og hreinskilinna, einlægra texta úr Drake-skólanum er það sem heillar. Þetta gerir í raun plötuna og er ástæðan fyrir athyglinni og aðdáuninni sem hefur leikið um þennan dreng. Tökum bara titillagið, „Þekkir stráginn“, sem er eins og að lesa opna dagbók. Sextán ára, ástfanginn strákur, með þann tilfinningavöndul og hormónaflæði sem því fylgir. Þetta er lagt fram tandurhreint: „Það er eitthvað sem þú gerir við mig / og ég er ekki alveg að ná því“. Þannig talar Aron Can umbúðalaust um hluti sem allir jafnaldrar hans geta tengt við. Aron er þó ekki alltaf í þessum rólegheitagír, í „Grunaður“ er gefið í og einnig í „Tíu“, sem er „veifum höndum“ slagari. Svo eru lög eins „2016“ sem er dreymið mjög, raddleiðréttingarforritið í botni og Aron hrópar textann, bæði þjáist og þarfnast. Í „Plís talaðu“, lokalaginu, leggur hann spilin á borðið, nennir ekki að rífast og biður stúlkuna um að „hætta að fokking snúa út úr“: „Mig langar bara í reyk og ró / og mig langar líka í þig í nótt.“

Lúmskt

Þessi lína sem Aron Can gengur eftir er lúmsk, þar sem það er frekar einfalt að detta niður í hreina væmni. En hann jafnhattar þetta með miklum glans, býr einfaldlega yfir þeim sjarma sem til þarf. Frábær plata.

Aron Can - Þekkir stráginn

Tengdar fréttir

Tónlist

Aron Can - Þekkir stráginn

Tónlist

Systurnar, sorgin og sáttin

Tónlist

Einlægt og heiðarlegt verk

Tónlist

Himneskir tónar og hátíðarbragur