Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Einlæg og öflug samstaða við Balkanskaga

27.03.2020 - 07:01
epa08321192 An art installation 'Broken heart' made by Croatian artist and designer Ivona after an earthquake in capital Zagreb, Croatia, 25 March 2020. A magnitude 5.3 earthquake shook Croatia on 22 March 2020 damaging buildings and cutting off electricity in a number of neighborhoods.  EPA-EFE/ANTONIO BAT
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Þar sem áður ríkti óeining og stríð vegna þjóðernishyggju, virðist fáheyrð samstaða vera raunin. Ríki við Balkanskaga hafa sýnt hvoru öðru mikla umhyggju í því ástandi sem heimsbyggðin öll tekst á við um þessar mundir.

Síðastliðinn sunnudag sameinuðust íbúar í Belgrad í Serbíu og Sarajevó í Bosníu-Hersegóvínu um að klappa fyrir Króötum, til þess að sýna þeim samstöðu vegna jarðskjálftans sem varð þar fyrr um daginn. Þetta var í fyrsta sinn í um þrjá áratugi sem Belgrad-búar sýndu jafn öflugan og einlægan stuðning í garð Króatíu. 

Fljótlega eftir skjálftann í Zagreb fór teiknuð mynd sem eldur í sinu um samfélagsmiðla í Sarajevó. Þar hélt úlfurinn Vucko, lukkudýr Ólympíuleikanna í Sarajevó árið 1984, á íkornanum Zagi, lukkudýri háskólaleikanna í Zagreb árið 1987. Á myndinni aðstoðar Vucko Zagi við að komast yfir húsarústir.

Þá sýndu borgaryfirvöld í Sarajevó Zagreb stuðning með því að kasta litríkum ljósum sem mynduðu stórt hjarta á ráðhús Sarajevó.

Að sögn Deutsche Welle gengur brandari um Balkanskagann sem segir að kórónaveiran eigi ekki séns í Bosníu-Hersegóvínu. Leiðtogar ríkisins eigi eftir að rjúfa hana í þrjú mismunandi þjóðerni kórónaveira, veikja þær og minnka þannig hættuna af henni. Veirunni er raunar slétt sama um þjóðerni. Hún hefur þó valdið því að þjóðarbrotin í borginni Mostar þurftu að vinna saman. Mostar er nokkurs konar táknmynd um það hvernig þjóðarbrotin greina sig að í Bosníu-Hersegóvínu. Tvö sjúkrahús eru í borginni, sjúkrahús kaþólikka í vesturhlutanum og múslima í austurhlutanum. Þunguð kona með COVID-19 kom til aðhlynningar á sjúkrahúsið í vestri. Sjúkrahúsin gerðu þá með sér samning um að færa kvensjúkdómadeild sjúkrahússins til austurs. Öll deildin var sótthreinsuð, og opnuð að nýju nokkru síðar. 

Vona að samstaðan haldi áfram að loknum faraldrinum

Í hverfinu Dobrinja, í útjaðri Sarajevó, er fátækum færður matur, hvert sem þjóðerni þeirra er. Það sama á við um borgina Zenica. Ungir sjálfboðaliðar á svæðinu færa öldruðum mat, og læknanemar bjóða fram þjónustu sína á sjúkrahúsum. 

Skipuleggjendur stuðningsklappsins á sunnudag vonast til þess að þessi samstaða haldi áfram þegar faraldurinn verður loks á bak og burt. „Umhyggju og stuðningi er sama um þjóðerni, trú eða stjórnmálaskoðanir," sögðu þeir. 

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV