Athugið þessi frétt er meira en 9 ára gömul.

Einkennileg skilaboð frá ráðherra

06.09.2012 - 21:36
Mynd með færslu
 Mynd:
Velferðarráðherra sendir undirmönnum sínum einkennileg skilaboð með hækkun launa forstjóra Landspítalans, segir Eygló Harðardóttir, þingmaður í velferðarnefnd Alþingis.

En ráðherra hækkaði um mánaðamót laun Björns Zoega, forstjóra Landspítala um 450 þúsund krónur. Birni var á dögunum boðin staða forstjóra stórs spítala í Svíþjóð með mun hærri laun en hann hefur í dag. Velferðarráðherra vildi halda Birni - og því voru laun hans hækkuð. Laun Björns nema því í dag rúmlega tveimur komma þremur milljónum króna á mánuði.

Eygló segir ákvörðunin líklega fara á svig við lög. Að minnsta kosti á svig við anda þeirra.

Þegar maður skoðar lögin um kjararáð, þegar maður skoðar úrskurði kjararáðs þá get ég ekki séð betur en að ráðherra sé að fara á svig við lögin, eða amk. anda laganna," segir Eygló. "Það er skýrt að kjararáð á að úrskurða og taka ákvörðun um laun æðstu embættismanna og forstjóri Landsspítalans fellur svo sannarlega undir það."

Eygló segist velta því fyrir sér  hvaða skilaboð þessi gjörningur ráðherra sendi öðrum starfsmönnum sem heyri undir hann. Alþekkt sé að fólk, ekki síst í heilbrigðisgeiranum, hafi skoðað eða fengið atvinnutilboð frá útlöndum frá þar sem bjóðist betri laun.

"Ef ráðherra telur ástæðu til að fara að hækka laun almennt hjá undirmönnum sínum að þá væri náttúrulega mikilvægast að líta til þeirra sem eru að veita þjónustuna beint - læknar og hjúkrunarfólk sem hafa líka verið að sækja mjög út fyrir landssteinana og fengið góð launakjör þar. Þannig að skilaboðin eru mjög einkennileg," segir Eygló.