Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Einkarekinn spítali „býr til tvöfalt kerfi“

25.07.2016 - 17:30
Mynd með færslu
 Mynd:
Rekstur einkasjúkrahúss hér á landi mun hafa mikil áhrif á hið almenna heilbrigðiskerfi. Þetta segir prófessor við hjúkrunarfræðideild Háskóla Íslands. Nauðsynlegt sé að hið opinbera geri óháð mat á afleiðingum og áhættuþáttum sem slík starfsemi hefði hér á landi.

Til stendur að reisa 30 þúsund fermetra einkarekið sjúkrahús og hótel í Mosfellsbæ á næstu árum. Að framkvæmdinni stendur hollenska félagið Burbanks Holdings og verður áhersla lögð á að þjónusta erlenda sjúklinga. Rúnar Vilhjálmsson, prófessor í félagsfræði við hjúkrunarfræðideild HÍ, segir sjúkrahúsið muni hafa mikil áhrif á íslenskt heilbrigðiskerfi, þótt hluthafar segi annað.

„Þessi spítali mun hafa ýmis tengsl við almennu heilbrigðisþjónustuna og almenna heilbrigðiskerfið, óhjákvæmilega. Bæði mun hann sækja starfsfólk þangað og það gildir bæði um lækna og hjúkrunarfræðinga og annað starfslið. Síðan mun þetta sjúkrahús líka þurfa á almennu heilbrigðisþjónustunni að halda þegar upp koma ýmis vandamál sem tengjast aðgerðum á slíkum spítala og vegna annarra kvilla og vandamála sem sjúklingarnir glíma við og kallar á heilbrigðisþjónustu sem ekki er veitt inn á þessum sérhæfða spítala,“ segir Rúnar

Sjúkrahúsið háð heilbrigðiskerfinu

Sjúkrahúsið muni því alltaf vera háð hinu almenna heilbrigðiskerfi hér á landi. Rúnar telur mikilvægt að stjórnvöld geri heildstæða og óháða úttekt á þeim afleiðingum sem slíkt sjúkrahús myndi hafa hér á landi. Núverandi gæða- og eftirlitskerfi meti ekki kerfilslægar afleiðingar breytinga í heilbrigðiskerfinu.

„Það kann að vera að það þurfi að endurskoða lög og reglugerðir í þessu sambandi, til dæmis varðandi heilbrigðisþjónustuna almennt, og landlæknisembættið sérstaklega, til að eftirlitsaðilinn, landlæknisembættið, hafi tæki og tól til að gera slíkar úttektir og fái til þess fjármagn og stuðning til að gera slíkar úttektir á þróun kerfisins og kerfislegum áhættum sem geta fylgt breytingum sem áformaðar eru eða eiga sér stað."

Ríkið mun taka þátt í kostnaðnum

Rúnar telur líklegt að hið opinbera muni ekki fara varhluta af fjárhagslegum skuldbindingum vegna sjúkrahússins. Fljótlega myndist þrýstingur um þátttöku Sjúkratrygginga Íslands í málefnum þeirra sem vilja hafa fjárráð til að sækja þjónustu til sjúkrahússins.  „Og jafnvel þótt það væri ekki raunin, þá er alveg ljóst að einhverjir gætu hugsað sér að hoppa framhjá aðgerðum í opinberu kerfi til að fá aðgerðir framkvæmdir á slíkum einkaspítala. Það er alveg ljóst í mínum huga að það verður til tvöfalt kerfi með slíkri starfsemi og mjög erfitt að neita sjúklingum sem eru innlendir um þjónustu á slíku sjúkrahúsi."

Óvíst hvaðan sjúklingarnir koma

Hluthafar í Burbanks Holding hafa gefið út að eingöngu verði lögð áhersla á að þjónusta erlenda sjúklinga á sjúkrahúsinu og því muni reksturinn ekki hafa áhrif á íslenskt heilbrigðiskerfi. Rúnar segir það óskýrt hvernig rekstraraðilar sjúkrahússins muni lokka erlenda viðskiptavini til sín. Bandaríkjamenn sæki til að mynda í auknum mæli til Suður-Ameríku og Asíu til að fá ódýrari heilbrigðisþjónustu. „Þá hafa betur stæðir Evrópubúar í vaxandi mæli á meginlandinu keypt sér einkatryggingar, sem annað hvort koma í staðinn fyrir eða eru viðbót við opinberar tryggingar í viðkomandi löndu,“ segir Rúnar.

Biðtímar styttist ekki

Því hefur verið haldið fram að rekstur einkasjúkrahúss gæti létt byrðina á hinu almenna heilbrigðiskerfi hér á landi og jafnvel stytt biðtíma. Rúnar segir það allskostar óvíst hvort biðlistar styttist, þar sem starfsfólk úr hinu almenna kerfi muni óhjákvæmilega flytjast yfir í hið einkarekna. 

„Þess vegna er svo mikilvægt að það sé staðið að heildrænu mati á mögulegum afleiðingum fyrir þjónustukerfið í heild þegar að svona starfsemi að þessu umfangi er til skoðunnar."

Endurskoðun á núverandi kerfi nauðsynleg

Að mati Rúnars er aðkallandi að stjórnvöld endurskoði núverandi laga- og regluverk. „Það þarf að gera heildstætt mat á þessu og þetta þarf að vera reglulega gert með ákveðnu millibili svo við getum fylgst nákvæmlega með þróuninni þegar á þarf að halda. Við erum of upptekin af mati á einstökum stofnunum og stöðu innan einstakra stofnanna og eins starfsemi einstakra starfsmanna, en þyrftum að gefa meiri gaum að þjónustukerfinu okkar í heild og hvort að það er að sinna nægilega vel heilbrigðisþörfum almennings."