Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Einhverf börn hvorki í skóla né meðferð

12.04.2019 - 19:33
Mynd með færslu
 Mynd: Anton Brink - Ruv.is
Að minnsta kosti þrjú börn með einhverfu eru ekki í grunnskóla því hvorki þau né skólinn geta tekist á við það. Móðir ellefu ára stúlku, sem grunnskóli hennar treystir sér ekki til að hafa, segir að úrræðin séu engin og margra vikna bið eftir því að komast á fund hjá Barna- og unglingageðdeild Landspítalans. 

Erfiðleikar einhverfra í skóla eru ekki einsdæmi en það eru fá einhverf börn sem hreinlega eru ekki í skóla. 

„Í augnablikinu eru tvær stúlkur og einn drengur sem ég veit af. Það eiga öll börn rétt á námi við hæfi í sínum heimaskóla en svo er það spurning hvort að skólinn geti tekið á móti þeim ef það skortir starfsfólk með þekkingu eða aðstaðan er ekki til staðar sem hentar þeim börnum,“ segir Sigrún Birgisdóttir frkvstj. Einhverfusamtakanna.

Sigrún segir að svona mál séu á hendi margra ráðuneyta og að það vanti að þau vinni saman. 

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Grímur Sigurðsson - RÚV
Sigrún Birgisdóttir framkvæmdastjóri Einhverfusamtakanna.

Hrönn Sveinsdóttir skrifaði Svandísi Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra opið bréf þar sem hún segir ellefu ára dóttur sína nú hvorki fá skólavist né meðferð. Fullreynt var fyrir nokkrum dögum með veru hennar í skólanum og foreldrarnir hafa þegar farið á nokkra fundi á BUGL, barna- og unglingageðdeild Landspítalans: 

„Við vitum ekki hvert hún á að fara núna. Við vitum bara að hún er á biðlista. Þangað til þurfum við að geyma hana. Við vitum ekkert hvað, við vitum bara að það verður fundur 5. maí um hvar hún sé á biðlistanum,“ segir Hrönn. 

En hún getur ekki verið í sínum grunnskóla lengur?

„Nei, og ég vil taka það fram að grunnskólinn hefur reynst okkur mjög vel.“

Hrönn segir að erfiðara sé með stúlkur en drengi, þær greinist seinna og passi ekki inn í þetta dæmigerða einhverfukerfi. Þau foreldrarnir séu búin að velkjast um í geðheilbrigðiskerfinu síðan stúlkan var fimm ára en komust fyrst að því fyrir ári að hún væri einhverf en þá standi engin meðferð til boða. 

„Það er bara eins og við séum með fyrstu einhverfu 11 ára stúlkuna á Íslandi og það veit enginn hvað á að gera.“

Hjá BUGL hafi hún fengið ráðleggingar og leiðbeiningar en engin bein inngrip eða sálfræðilegan stuðning. Og bráðainnlögn var þeim sagt að væri bara fyrir börn sem reynt hefðu að svipta sig lífi, en þau væru svo send heim eftir einn til tvo daga. 

„Hvurs lags þjónusta er það við barn sem reynir að svipta sig lífi? Fyrir utan að einhverf börn, þau gera allt mjög vel. Og einhverft barn sem ætlar að svipta sig lífi, það reynir það ekkert, það gerir það bara.“

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra hefur talað við Hrönn og ráðuneyti hennar er að láta athuga málið. 

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Grímur Sigurðsson - RÚV
Hrönn Sveinsdóttir.
Þórdís Arnljótsdóttir
Fréttastofa RÚV