Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Einhugur um endurkomu Ágústs Ólafs

04.05.2019 - 20:13
Mynd með færslu
 Mynd: Þór Ægisson - RÚV
Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, segir að einhugur sé í þingflokki flokksins um endurkomu Ágústs Ólafs Ágústssonar á Alþingi. Ágúst Ólafur tók sæti sitt á þingi á ný um mánaðamót en hann fór í leyfi eftir að hafa kynferðislega áreitt konu.

„Að því gefnu að hann tók með þessum hætti á sínum málum þá erum við tilbúin til að gefa honum færi að koma og vinna sér inn traust aftur,“ segir Logi. Ágúst Ólafur var í launalausu leyfi og síðan veikindaleyfi síðan í desember fram til síðustu mánaðamóta. Hann sagðist í fréttum í vikunni hafa sótt sér faglega aðstoð við sínum vandamálum og horfst í augu við áfengisvanda sinn.

Siðanefnd Samfylkingarinnar komst að þeirri niðurstöðu í vetur að Ágúst Ólafur hafði brotið siðareglur flokksins, en ákvað að ekki væri tilefni til þess að banna honum að gegna trúnaðarstörfum fyrir flokkinn. En þó þingflokkurinn sé á einu máli er ekki sömu sögu að segja um flokksmenn. Ungir Jafnaðarmenn töldu að Ágúst Ólafur hafi átt að segja af sér vegna málsins, en ekki bara fara í leyfi. Á facebook skrifaði Sema Erla Serdar, fyrrverandi formaður framkvæmdastjórnar flokksins, að hún teldi að ekki hafi verið tekin skýr afstaða í málinu gegn kynferðislegri áreitni.

„Fyrst vil ég nú segja að í 16.000 manna flokki þá er alveg viðbúið að fólk hafi mismunandi skoðanir á þessum hlutum og öðrum og ég get ekki gert annað en borið virðingu fyrir því,“ segir Logi. „Ágúst hins vegar ákvað að axla frekari ábyrgð og taka líf sitt rækilega í gegn. Þegar að fólk gengst við sínu hrasi og sýnir með áþreifanlegum hætti að það er tilbúið til þess að verða betri manneskjur þá finnst okkur rétt að sýna honum það umburðarlyndi að gefa honum annan möguleika.“