Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Einfaldar tæknibrellur skapa undraheim

Mynd: RÚV / Kastljós

Einfaldar tæknibrellur skapa undraheim

09.01.2017 - 14:24

Höfundar

„Ég er að skoða hvernig er hægt að nota svona einfaldar brellur til að skapa hliðarheim,“ segir Elín Hansdóttir myndlistarmaður sem stendur fyrir sýningunni Simulacra í gallerýi i8.

Elín segist hafa rekist á bók um tæknibrellur kvikmynda fyrri tíma og hún heillaðist sérstaklega af einni aðferð þar sem stórar glerplötur eru málaðar og settar fyrir framan kvikmyndavélarnar, til dæmis sem viðbót við landslag og umhverfi. „Ég heillaðist gjörsamlega af þessu því þetta var svo einföld og lo-fi aðferð við að kalla fram undraheim.“ Þessi klassíska brella hefur verið notuð nánast frá upphafi kvikmyndagerðar og alveg fram á árið 2000.

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Kastljós

Elín málar á gler sem hún kemur með í sýningarsalinn og tekur svo ljósmyndir í gegnum glerið á staðnum. „Það er súla í sýningarsalnum sem mig langaði til að stroka út, í stað súlunnar set ég svífandi blómbönd sem er að fölna. Þannig við sjáum níu svipmyndir af sama blómvendi á sama stað nema hann er bara að visna, það er semsagt tímaelement inn í þessu líka.“

Elín segir að ákaflega mikilvægt sé þó að málverkið sé ekki of fullkomið. „Þegar fótórealískt málverk er ófullkomið, þá gerist eitthvað í heilanum, það myndast eitthvað augnablik þar sem við göngumst við brellunni.“ Sýningin Simulacra stendur yfir í gallerý i8 til 5. febrúar.