Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Einbýli fyrir sama verð og íbúð

11.07.2017 - 10:21
Mynd með færslu
Í Reykjanesbæ. Mynd úr safni.  Mynd: RÚV
Töluverðir fólksflutningar hafa verið í sveitarfélögin í nágrenni höfuðborgarsvæðisins undanfarin ár og telja viðmælendur fréttastofu að hagstætt fasteignaverð hafi þessi áhrif. Íbúum í Reykjanesbæ hefur til að mynda fjölgað um 13,5 prósent frá árinu 2012 til 2016. Þar er fólksfjölgunin mest á landsvísu, sé miðað við stærri sveitarfélög. Á aðeins einu ári, frá maí í fyrra og þar til í maí á þessu ári, fjölgaði íbúum í Reykjanesbæ um 6,4 prósent. 

Straumurinn liggur víðar því að íbúum í Árborg og Hveragerði hefur fjölgað um 8 prósent síðan árið 2012 og íbúum á Akranesi um 6,5 prósent. Á tímabilinu 2012 til 2016 fjölgaði íbúum í Reykjavík um 3,5 prósent. 

 

 

Hátt fasteignaverð hefur áhrif

Á síðasta ári fluttu 1.109 manns frá höfuðborgarsvæðinu til Suðurnesja. Á sama tíma fluttu 683 frá Suðurnesjum og til höfuðborgarsvæðisins. Þá fluttu 935 frá höfuðborgarsvæði á Suðurland. Aðeins færri, eða 849, fluttu frá Suðurlandi til höfuðborgarsvæðisins. Í öðrum landshlutum eru hlutföllin þannig að fleiri flytja til höfuðborgarsvæðis en frá því og út á land.

Mikil eftirspurn er eftir eignum í öllum sveitarfélögunum á Suðurnesjum, að sögn Þrastar Ástþórssonar, fasteignasala hjá fasteignasölunni Fermetra í Reykjanesbæ: „Í augnablikinu er skortur á öllum stærðum og gerðum af fasteignum. Það eru mörg verkefni að fara í gang svo að eftir eitt til tvö ár á ég von á því að framboðið nái jafnvægi.”

Þröstur segir ljóst að hagstætt fasteignaverð á Suðurnesjum samanborið við á höfuðborgarsvæðinu dragi íbúa að. „Ég myndi halda að verðið væri fyrsta hugsun fólks en það má heldur ekki gleyma því að hér er mjög gott að búa.” Hann bendir á að fasteignaverð á Suðurnesjum hafi hækkað undanfarin misseri.

Þröstur segir nýja íbúa á Suðurnesjum koma alls staðar að, frá höfuðborgarsvæðinu og víðar af landinu.

 

Kjartan Már Kjartansson, bæjarstjóri í Reykjanesbæ, tekur í sama streng og segir hagstætt verð á fasteignum, ásamt góðu atvinnuástandi hafa mikil áhrif á búsetuþróun. „Hér er töluvert um að fólk í störfum tengdum flugi hafi nú séð sér hag í að flytja til Suðurnesja og spara sér tíma við að keyra á milli, til dæmis frá höfuðborgarsvæðinu. Fólk getur jafnvel keypt sér einbýlishús fyrir sama verð og lítil íbúð á höfuðborgarsvæðinu kostar.”

 
 

Fólk farið að horfa út fyrir höfuðborgarsvæðið

Fannar Jónasson, bæjarstjóri í Grindavík, segir ljóst að hagstætt lóða- og fasteignaverð hafi áhrif á það hversu margir flytji þangað. Hann nefnir einnig að atvinnuleysi sé með minnsta móti, innviðir sterkir og að bæjarfélagið standi vel. „Það er bylgja í gangi núna og fólk er farið að horfa út fyrir höfuðborgarsvæðið, einkum vegna þess hversu dýrt er að kaupa þar húsnæði og lóðir illfáanlegar. Grindavík er landstórt sveitarfélag og því verður nóg af lóðum. Kostnaður fyrir húsbyggjendur er mun lægri en á höfuðborgarsvæðinu.”

Nú eru varla fáanlegar litlar íbúar í Grindavík. „Það er mikil eftirspurn eftir lóðum og á síðustu mánuðum höfum við úthlutað öllum lóðum undir rað- og parhús. Það er til aðalskipulag með nýju hverfi og nýjum götum. Það sem var frágengið er uppurið.” Nú er unnið að því hörðum höndum að hefja útboð vegna framkvæmda við nýjar götur. Þegar þær verða tilbúnar verður á ný hægt að úthluta lóðum.

Íbúafjölgunin hefur ýmsar áskoranir í för með sér fyrir bæjaryfirvöld í Grindavík. Fannar nefnir að leikskólarnir tveir í sveitarfélaginu séu þétt setnir og bæjaryfirvöld farin að huga að því að hvenær þurfi að bregðast við. Fjölgun íbúa í Grindavík er þó engin nýlunda. Undanfarin 20 ár hefur íbúum fjölgað töluvert, en þó í sveiflum. Fannar telur að fjölgun íbúa ætti ekki að vera sérstakt keppikefli hjá sveitarfélögum, heldur að geta fylgt henni eftir með góðri þjónustu við íbúa.​

Mynd með færslu
Hilma Hólmfríður og Jón Björn ásamt börnum sínum.  Mynd: Sigrún Össurardóttir

 

Fjölskyldulífið fékk ítalskan blæ

Hilma Hólmfríður Sigurðardóttir er ein þeirra fjölmörgu sem hafa að undanförnu flutt til Suðurnesja. Hún flutti með eiginmanni sínum og þremur börnum til Njarðvíkur á síðasta ári og unir fjölskyldan sér vel á nýjum slóðum. Hilma ólst upp í Sandgerði og eiginmaður hennar, Jón Björn Ólafsson, í Njarðvík. „Við hjónin fluttum til Reykjavíkur þegar við vorum tvítugt kærustupar og nýútskrifuð úr Fjölbrautaskóla Suðurnesja. Við fórum í háskóla og fengum bæði vinnu í Reykjavík fljótlega eftir námið. Það var því ekki inni í myndinni að flytja aftur á Suðurnesin á þeim tíma,“ segir hún. 

Í hittiðfyrra voru börnin orðin þrjú og fjölskyldan bjó í lítilli íbúð á fjórðu hæð í lyftulausri blokk í Reykjavík. „Það var því farið að þrengja verulega að okkur og þá voru góð ráð bókstaflega mjög dýr í Reykjavík,“ segir Hilma. Þau fylgdust vel með fasteignum til sölu á æskuslóðunum. „Svo fundum við akkúrat rétta húsið sem hentaði okkur og erum alsæl.“ Hilma segir fjölskylduna hafa fengið ítalskan blæ við flutninginn enda búi ömmur, afar, aðrir ættingjar og margir vinir á Suðurnesjum. „Matarboðin eru orðin tíðari og samverustundirnar háværar og fullar af gleði. Það er gaman að sjá börnin sín mynda falleg tengsl við ömmur og afa sem voru með öðrum hætti þegar við bjuggum í Reykjavík.“

Að mati Hilmu er stutt í alla þjónustu og erindagjörðir taka styttri tíma en á höfuðborgarsvæðinu. „Börnin okkar hafa mikið frelsi til þess að leika, hér eru krakkarnir í hverfinu mikið saman. Húsið er ýmist tómt eða fullt af börnum, börnin fara á milli húsgarðanna og eru alls staðar velkomin.“ Hilma kveðst stundum sakna Klambratúnsins í Reykjavík. „Við söknum líka vina okkar sem búa í Reykjavík. Við hittum þá sjaldnar en það er þeim mun skemmtilegra að taka á móti þeim í dreifbýlinu. Þeir stoppa lengur og úr verður skemmtileg gæðastund.“ Hilma og eiginmaður hennar vinna bæði í Reykjavík en fá að vinna heima einn dag í viku. „Nútímatækni gerir okkur mögulegt að vera hreyfanleg í vinnu og það er frábært að vinnustaðir séu farnir að leyfa starfsfólki sínu að nýta það.“

dagnyhe's picture
Dagný Hulda Erlendsdóttir