Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Einangrunarstöðinni í Hrísey lokað

09.12.2015 - 11:38
Mynd með færslu
 Mynd: Ásgeir Már Andrésson - RÚV
Einangrunarstöðinni í Hrísey hefur verið lokað og starfsemi, sem þar hófst fyrir 40 árum, lögð af. Eigandinn segir eftirsjá í stöðinni sem hafi komið Hrísey á kortið á sínum tíma.

Einangrunarstöð fyrir holdanaut var fyrst opnuð í Hrísey árið 1975 og höfð þar naut af Galloway kyni. Einangrunarstöð fyrir gæludýr var svo opnuð árið 1989. Nú hefur öll þessi starfsemi verið lögð niður og stöðinni lokað. Kristinn Frímann Árnason er síðast eigandi stöðvarinnar. 

Öll nautin seld í land
„Við hættum með gæludýrastöðina í september síðastliðnum og svo vorum við núna að flytja nautin í land. Við vorum með þau í „hobbý búskap“ nokkrir áhugsamir og seldum gripina á gott bú í Þingeyjarsýslu.“

Eftirspurnin hrundi
Þegar einangrunarstöð fyrir gæludýr var opnuð í Reykjanesbæ var stöðinni í Hrísey lokað í hálft annað ár. Kristinn tók við rekstrinum árið 2008 rétt fyrir bankahrunið. „Þá bara hrundi niður eftirspurn og annað og svo hefur smátt og smátt minnkað innflutningur á gæludýrum. Allavega norður til mín.“

Hríseyjarkjötið hverfur af matseðlinum
Þó lengra sé síðan hætt var að hafa holdanaut í einangrun í Hrísey, hafa naut af upphaflega Galloway kyninu verið ræktuð í eynni hingað til. Kjötið af þeim var vinsælt á veitingahúsinu Brekku í Hrísey, en þetta Hríseyjarkjöt er nú ekki fáanlegt lengur. Kristinn segir eftirsjá í þessu einkenni Hríseyjar.

Stöðin kom Hrísey á kortið
„Það má segja að eyjan hafi komist á kortið út af þessum nautum. En svo bara breytast þessir tímar svo mikið. Sumir segja það orðið úrelt, allvega gæludýraeigendur, að það skuli vera þessi einangrun áfram. Ég segi samt að hún eigi alveg fullan rétt á sér,“ segir Kristinn.