Eina reglan er: Bannað að segja „sorrí“

Mynd: Rakel Mjöll Leifsdóttir / Einkasafn

Eina reglan er: Bannað að segja „sorrí“

19.03.2020 - 13:21

Höfundar

Hljómsveitin Dream Wife átti upprunalega að vera gervistúlknasveit, gjörningur innblásinn af kvikmyndinni This is Spinal Tap. En draumaeiginkonan er ekkert að þykjast lengur. Hún tekur sér pláss án þess að biðja um leyfi og er hætt að segja fyrirgefðu.

Þegar tónlistarkonan Rakel Mjöll Leifsdóttir flutti til Brighton fyrir nokkrum árum hafði hún þegar getið sér gott orð í tónlistarbransanum á Íslandi. Hún söng með rafpoppurunum í Sykri, brassskotin þjóðlög með hljómsveitinni Útúrdúr og hún og Sölvi Blöndað höfðu sent frá sér nokkur lög með hljómsveitinni Halleluwah. Hún elst líka upp í söngelskri fjölskyldu og tók hún ásamt systrum sínum þátt í þriggja vikna tónlistargjörningi Ragnars Kjartanssonar í Carnegie Hall og sungu þær viðstöðulaust í átta tíma á dag í heilan mánuð. Tónlistin sem Rakel gerir í dag er þó nokkuð frábrugðin því sem hér er upp talið. Þær Belle og Alice sem Rakel kynntist úti í Brighton voru einnig með bakgrunn í tónlist en þær höfðu þó alls ekki í hyggju að stofna hljómsveit þegar þær kynntust. Upprunalega átti hljómsveitin Dream Wife líka að vera gjörningur. Gervistúlknasveit, innblásin af kvikmyndinni This is Spinal Tap. En viðtökurnar voru svakalegar og eftirspurnin varð slík að gjörningurinn var ekki lengur gjörningur heldur raunveruleg hljómsveit og aðdáendahópurinn er sístækkandi. „Okkur langaði bara að spila og þannig byrjaði þetta band,“  segir  Rakel Mjöll sem tók sér far með Lestinni og sagði frá tilurð sveitarinnar og framtíðar áformum sem auðvitað hafa raskast heilmikið vegna COVID-19 faraldursins.

Feminískt og valdeflandi pönk

Þær gáfu út sína fyrstu stuttskífu árið 2016 og aðra árið 2017. Þeirra fyrsta breiðskífa sem kom út ári síðar fékk frábæra dóma og síðan hafa þær reglulega ferðast um heiminn og getið sér gott orð fyrir kraftmikla sviðsframkomu. „Þetta var mikil keyrsla og alveg æðislegt,“  segir Rakel um Evróputúrinn. „Það er gaman að fara um allan heiminn og að sjá hátíðir eins og Primavera og Glastonbury og að fara til Japans. Að sjá heiminn með hljómsveit.“ 

Allir dansa kónga á tónleikum

Tónlist sveitarinnar og sviðsframkoma einkennist af feminísku pönki og uppreisnaranda. Þær leggja líka mikla áherslu á það á tónleikum sínum að áhorfendur finni fyrir öryggi og geti sleppt sér, dansað og öskrað að vild. Það tryggja þær meðal annars með því að biðja kynsegin- og kvenfólk um að koma nær sviðinu en að aðrir taki skref til baka og gefi þeim pláss. „Við ýtum undir að öllum líði vel og passi upp á hvert annað. Það er það fallega við pönkið að fólk getur sleppt sér og fundið samkennd,“  segir hún. Sveitin hefur líka hvatt áhorfendur til að fara í ýmsa leiki í þvögunni og meðal annars leikið með þeim allir dansa kónga á tónleikum. Það hefur vakið mikla lukku þó sumum finnist uppátækið kjánalegt. „Það skiptir svo miklu máli að öllum líði vel og allir séu hluti af sjóinu,“  segir Rakel kímin. 

Eiga fátt sameiginlegt með Spice Girls

Þegar Dream Wife kom fyrst inn á sjónarsviðið stimpluðu fjölmiðlar í Bretlandi þær sem stúlknasveit. Það fannst meðlimum mjög undarlegt. Þær eru sannarlega stúlkur í hljómsveit en efast um að karlmenn í pönkböndum séu kallaðir drengjaband í daglegu tali. Þegar þeim var líkt við sveitir á borð við Spice Girls gátu þær ekki annað en hlegið yfir samanburðinum. „En þær eru samt flottar,“  segir Rakel sem þykir skrýtið að átta sig á því hve mikil áhrif kyn hljómsveitarmeðlima hefur haft á þann ramma sem samfélagið sníðir þeim í tónlist. Með áherslum sínum, hávaðanum og pönkinu og því að gefa konum og kynsegin fólki sérstakt rými á tónleikum virðist sveitin hinsvegar ekki aðeins hafa tætt þann ramma í sig heldur gefið honum nýja merkingu. „Því stærra svið sem við höfum fengið og meira svigrúm höfum við vakið athygli á að ekki sé nægur stuðningur fyrir konur sem eru að byrja í hljómsveit hér.“ 

Allt of fáar konur á bak við tjöldin

Þrátt fyrir að fyrirhuguðum tónleikum sveitarinnar hafi verið slegið á frest sökum heimsfaraldursins sem nú geysar er mikið framundan hjá Dream Wife sem stefnir á plötuútgáfu í sumar. Allir sem koma að gerð plötunnar, sem nú er á lokastigum í hljóðblöndun, eru konur. „Fyrir okkur var þetta ekki endilega eitthvað sem við pældum í fyrr en platan var tilbúin og við áttuðum okkur á að þetta væri algengt,“  segir Rakel sem bendir á að hún hafi í kjölfarið komist að því að aðeins 3% þeirra breiðskífa sem komu út í fyrra hafi verið pródúseraðar af konum. Aðgengi kvenna að tæknistörfum í bakenda tónlistariðnaðarins sé einstaklega lítið. Áður fyrr hafi menn jafnvel forðast að ráða konur í stúdíóstörf af ótta við að þær myndu draga athygli tónlistamanna frá tónlistinni. Glerþakið er víða og Dream Wife gerir áfram það sem þær geta til að mynda á því sprungur. Í síðustu viku, samhliða tilkynningu um nýju plötuna, gáfu þær út tónlistarmyndband við nýja lagið sem nefnist Sports. 

Það má ruglast og missa boltann

„Það var miklu skemmtilegra að gera aðra plötu. Það er svo mikil orka, líkamsrækt og adrenalín sem fylgir því að vera á sviði að okkur fannst erfitt að setjast niður að semja,“  segir Rakel. Sveitin brá á það ráð að kúpla sig út úr borgarlífinu og héldu þær kyrrð bresku sveitarinnar. Þar tókst þeim að semja lögin en fundu líka sameiginlegt áhugamál sem varð innblástur að nýja laginu. "Við fórum út í garð að spila badminton,“  rifjar Rakel upp og hlær. „Þetta var ekki venjulegt badminton heldur vorum við að æfa okkur í að halda boltanum á lofti.“  

Í leiknum var ein regla sem hljómsveitin hefur síðan tekið með sér inn í allt tónlistarferlið. Reglan var að það mætti ekki biðjast afsökunar ef maður missti boltann. Eftir einn leik fóru þær inn í upptökurýmið og sömdu lagið á innan við klukkutíma. Enginn baðst afsökunar þó að þær rugluðust eða spiluðu vitlaust, það var einfaldlega byrjað upp á nýtt orðalaust. Alveg eins og í badminton. 

Dream Wife voru bókaðar á ýmsar tónlistarhátíðir í sumar sem hefur verið aflýst en vonast þær þó til að geta fylgt plötunni eftir með tónleikaferðalagi um heiminn næsta haust. Og það er alveg ljóst að hvar sem þær koma fram og hverju sem þær taka upp á, þær eru ekki mættar til að biðjast afsökunar.

Anna Marsibil Clausen ræddi við Rakel Mjöll Leifsdóttur í Lestinni.

Tengdar fréttir

Popptónlist

Flóni, Dream Wife og Raven með nýtt

Tónlist

„Verðum alltaf Reykjavíkurdætur á Íslandi“

Tónlist

Femínísk rokkeining byrjaði sem gjörningur