Ein yfirgengilegasta og hárugasta tískusýning heims

Mynd: Kári Björn Þorleifsson / Kári Björn Þorleifsson

Ein yfirgengilegasta og hárugasta tískusýning heims

08.03.2020 - 14:02

Höfundar

Í byrjun febrúar ár hvert fer fram á efstu hæð Pennsylvania-hótelsins í New York einhver yfirgengilegasta, litríkasta og hárugasta tískusýning heims, gæludýra-tískusýningin New York Pet Fashion Show. Sýningin fer fram á sama tíma og tískuvika borgarinnar og er síst minna lagt í fötin á tískupallinum. Ljósmyndarinn Kári Björn Þorleifsson hefur myndað sýninguna undanfarin fjögur ár.

„Það er kannski ekki svo absúrd pæling núna að setja hunda í föt, en þetta eru engar venjulegar flíkur. Þetta eru fimm hundruð dollara kjólar og þúsund dollara demantskórónur og þess háttar,“ segir ljósmyndarinn Kári Björn Þorleifsson í viðtali í Lestinni á Rás 1.  Hann hefur myndað tískusýninguna undanfarin fjögur ár og á laugardag opnar hann ljósmyndasýninguna Pooches með myndunum í galleríinu Studio Sol á Vagnhöfða.

Kári Björn er fæddur og uppalinn í Reykjavík en er nú búsettur í New York þar sem hann  útskrifaðist með BFA-gráðu í ljósmyndun frá Parsons School of Design árið 2018. Upphaflega byrjaði hann að ljósmynda sýninguna sem hluta af skólaverkefni í tískuljósmyndun. „Ég hafði ákveðna fordóma þegar ég byrjaði á þessu, til dæmis eftir að hafa séð myndina Best in Show,“ segir Kári og vísar í þar bandaríska grínmynd frá árinu 2000 um harða samkeppni meðal keppanda á hundasýningum.

Mynd með færslu
Mynd: Kári Björn Þorleifsson

„Það er enginn svona amerískur fegurðardrottninga-mömmu-rígur eins og fordómarnir í mér vildu halda, að þessar upp til hópa miðaldra konur sem eiga kannski aðeins of mikinn pening, væru að baktala hver aðra. En þessi rígur sem ég hélt að væri þarna er alls ekki til staðar. Það eru allir bara mjög góðir vinir og aðgangseyririnn á sýninguna rennur allur óskiptur til dýraathvarfa í borginni.“

Flest dýrin sem taka þátt í sýningunni eru hundar en öll gæludýr eru velkomin og þar má stundum sjá ketti, eðlur, smáhesta og rottur. Búningar gæludýranna eru oftar en ekki sérhannaðir af sérstökum gæludýrafatahönnuðum og kosta mikla vinnu og peninga. Kári segir að ljósmyndirnar frá sýningunni hafi yfir sér ákveðinn léttleika og absúrdískan blæ enda séu keppendurnir meðvitaðar um hversu undarlegt þetta rándýra áhugamál virki utan frá. „Ég er ekki að hlæja að þeim heldur að hlæja með þeim. Þau átta sig fullkomlega á því hversu fáránlegt þetta er.“

Mynd með færslu
 Mynd: Kári Björn Þorleifsson
Mynd með færslu
 Mynd: Kári Björn Þorleifsson

Tengdar fréttir

Myndlist

Stríðnislegur leikur að ljósmyndinni

Menningarefni

Eyður, Kettir og útskriftarsýning Ljósmyndaskólans

Vestfirðir

Ferðast um heiminn og passa gæludýr

Dans

Dansljósmyndun var mótefni við óhamingju