Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Ein sú áhrifamesta og Sigríður ánægð með lögin

20.10.2019 - 19:01
Mynd: RÚV - Bjarni Felix Bjarnason / RÚV
Ein af hundrað áhrifamestu konum heims að mati BBC er íslensk og formaður Trans Íslands. Hún og Sigríður Hlynur bóndi í Þingeyjarsveit, sem enginn kallar Sigurð lengur, fagna lögum um kynrænt sjálfræði. 

BBC birti á miðvikudaginn lista yfir eitt hundrað áhrifamestu konur í heiminum og þar er ein íslensk kona, Ugla Stefanía Kristjönudóttir Jónsdóttir. Hún er formaður Trans Íslands og starfar við kvikmyndaverkefnið My Genderation í Bretlandi og hjá samtökunum All about trans, sem hafa að markmiði að skapa jákvæðari ímynd transfólks í fjölmiðlum. 

Meiri fordómar í Bretlandi

Ugla Stefanía segir að útnefningin hafi komið henni á óvart og verið smá yfirþyrmandi: 

„Ég áttaði mig ekki alveg á þessu fyrr en þetta var allt í einu komið en mjög ánægjulegt og mjög mikill heiður.“

Þú starfar að mestu leyti í Bretlandi, er brekkan erfiðari þar?

„Já, ég myndi segja að landslagið þar væri mun erfiðara og það er svolítið í takt við pólitíska landslagið í Bretlandi sem er mjög erfitt um þessar mundir. Og það er mjög erfitt að nálgast umræður um réttindi trans fólks og hinsegin fólks almennt.“

Finnurðu þá fyrir meiri fordómum úti?

„Já, ég myndi segja að það væru töluvert meiri fordómar og þegar ég tala kannski opinberlega og kem fram þá lendi ég í miklu meiri fordómum og fæ í rauninni rosalega mikið af áreiti sérstaklega á samfélagsmiðlum í Bretlandi út af því.“

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Bjarni Felix Bjarnason - RÚV
Ugla Stefanía Kristjönudóttir Jónsdóttir.

Enginn kallar hann lengur Sigurð

Brautryðjendurnir Sigríður og Ugla fluttu hugvekju á landsfundi VG og ræddu meðal annars um lögin um kynrænt sjálfræði sem samþykkt voru í júní. Sigríður Hlynur segist hafa aðeins orðið var við fordóma í kommentakerfum en þeir hríni ekki á honum.

„Fyrir mig var þetta óskaplega einfalt að þegar að þessi lög tóku gildi að þá gat ég tekið upp nafnið, sem ég var búin að sækja um áður en hafði verið hafnað af mannanafnanefnd.“

Honum þótti alltaf skrýtið að hafa verið skírður Sigurður eftir ömmu sinni sem hét Sigríður. Mjög margir kalla hann áfram Hlyn eins og þeir hafa gert síðustu 50 árin. 

„Þetta hefur engu breytt í mínu lífi sko og hvort að ég er kallaður Sigga eða Sigríður eða hvað. Það kallar mig alla vega enginn Sigurð lengur. Það er alla vega á hreinu. Þetta er bara aukaafurð af þessum frábæru lögum um kynrænt sjálfræði sem að voru náttúrlega bara stórkostleg fyrir eins og Uglu og fleiri bara sem að loksins geta bara skilgreint sig sjálfa án þess að spyrja leyfis.“

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Bjarni Felix Bjarnason - RÚV
Sigríður Hlynur Helguson Snæbjörnsson.