Athugið þessi frétt er meira en 10 ára gömul.

Ein hættulegasta gata borgarinnar þrengd

07.02.2013 - 16:28
Mynd með færslu
 Mynd:
Umhverfis-og skipulagsráðs samþykkti á fundi sínum í vikunni tillögu umhverfis-og samgöngusviðs að Snorrabraut yrði þrengd til að auka öryggi gangandi vegfarenda. Í bókun fulltrúa Besta flokksins, Samfylkingarinnar og VG segir að Snorrabraut sé ein af hættulegustu götum borgarinnar.

Tveir fulltrúar Sjálfstæðisflokksins, þau Gísli Marteinn Baldursson og Hildur Sverrisdóttir, greiddu einnig atkvæði með tillögunni en í bókun þeirra kom fram að Snorrabrautin væri stórhættuleg gangandi vegfarendum og löngu tímabært að gripið yrði til aðgerða.  

Þá segir einnig í bókun þeirra að Rannsóknarnefnd umferðarslysa hafi skorað á Reykjavíkurborg að bæta öryggi gangandi vegfarenda enda hafi tvö banaslys orðið á götunni síðustu átta ár. Þau árétta þó að um sé að ræða bráðabirgðaaðgerð. Nauðsynlegt sé að fara í löngu boðaðar aðgerðir um heildarhönnun götunnar. 

Júlíus Vífill Ingvarsson, Sjálfstæðisflokki, sat hjá við atkvæðagreiðslu málsins og óskaði  eftir umsögn lögreglustjórans í Reykjavík og Slökkviliðsins á tillögunni, einkum með tilliti til neyðaraksturs.

Í tillögu umhverfis- og samgöngusviðs segir að við Bergþórugötu verði Snorrabraut þrengd í eina akrein í hvora átt. Vasa fyrir vinstribeygju inn í Bergþórugötu verður lokað en vinstribeygja verður leyfð af vinstri akrein. Sama verði uppi á teninginum við Flókagötu, þar verður Snorrabraut þrengd í eina akrein til norðurs en tvær akreinar verða til suðurs. Vasa fyrir vinstribeygju inn í Flókagötu verður þó lokað.

Vasa fyrir vinstribeygju inn í Egilsgötu verður sömuleiðis lokað og við gangbraut norðan við Eiríksgötu verða settir fjórir strætókoddar. Stærtókoddum verður einnig komið fyrir við gangbrautarljós við Grettisgötu.

Kostnaðurinn við þessar aðgerðir er sagður nema tíu milljónum króna og að þrengingar verði að mestu graslagðar.