Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Ein af hverjum fimm reyndist svikapylsa

05.08.2017 - 15:53
Mynd með færslu
 Mynd: Tookapic - CC0
Ein af hverjum fimm pylsum, sem rannsakaðar voru í Kanada á dögunum, innihélt kjöt sem ekki kom fram í innihaldslýsingu á pakkningum. Þetta kemur fram í rannsókn sem gerð var við háskólann í Guelph og birtist í liðinni viku í tímaritinu Food Control.

Hundrað tegundir af pylsum voru skoðaðar. Samkvæmt innihaldslýsingu á pakkningu innihéldu þær einungis eina tegund af kjöti, - nauta-, svína-, kjúklinga- eða kalkúnakjöt.

Sjö af 27 nautapylsum, sem skoðaðar voru, innihéldu svínakjöt. Ein af 38 svínapylsum innihélt hrossakjöt. Af 20 kjúklingapylsum, sem rannsakaðar voru, innihéldu fjórar kalkúnakjöt og ein nautakjöt. Og fimm af þeim 15 kalkúnapylsum, sem skoðaðar voru, innihéldu engan kalkún, einungis kjúkling.

Kjötið sem pylsurnar innihéldu án þess að það kæmi fram á innihaldslýsingu var ekki í snefilmagni, að sögn Roberts Hanner sem leiddi rannsóknina. „Þetta var ekki vegna þess að hnífar eða vélarbúnaður hafði ekki verið hreinsaður," segir Hanner.

Engin af pylsutegundunum hundrað, sem rannsakaðar voru, innihélt meira en eina tegund af kjöti sem ekki var tilgreint í innihaldslýsingu.

Robert Hanner sem leiddi rannsóknina segir að niðurstöðurnar séu dálítið óþægilegar, sér í lagi fyrir fólk sem kýs að sniðganga tiltekin matvæli vegna trúarskoðana.

Matvælastofnun Kanada (e. Canadian Food Inspection Agency) lýsti því yfir á fimmtudag að niðurstöður rannóknarinnar kæmu ekki á óvart. Í umfjöllun fréttaveitunnar CBC kemur fram að þetta hlutfall, 20%, af pylsum sem innihalda kjöt, sem ekki kemur fram í innihaldslýsingu, sé lágt miðað við það sem gengur og gerist í Evrópu. Þar sé hlutfallið allt að 70% samkvæmt rannsóknum.

birkirbi's picture
Birkir Blær Ingólfsson
Fréttastofa RÚV