Mynd: INEOS Group - Jim Ratcliffe

Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.
Eignast hlut í fleiri jörðum í Vopnafirði
20.11.2018 - 07:35
Breski auðkýfingurinn Jim Ratcliffe hefur keypt eignarhaldsfélagið Grænaþing af Jóhannesi Kristinssyni, fjárfesti. Eftir kaupin á Ratcliffe tæpan 90 prósenta hlut í veiðifélaginu Streng ehf., sem er með Selá og Hofsá í Vopnafirði á leigu. Strengur á auk þess sex jarðir í Vopnafirði að hluta eða öllu leyti, Áður átti Ratcliffe tæp 35 prósent í Streng í gegnum félagið Fálkaþing. Þetta kemur fram í Fréttablaðinu í dag.
Þetta kemur fram í Fréttablaðinu í dag.
Ratcliffe er einn stærsti landeigandinn á Íslandi en hann hefur fest kaup á jörðum í Vopnafirði og Þistilfirði í nafni umhverfisverndar. Auðæfi Ratcliffe eru metin á 21 milljarð punda eða tæpa þrjú þúsund milljarða króna.
Jóhannes selur allt sitt hlutafé til Ratcliffe en hann átti einkahlutafélagið Grænaþing sem átti rúmlega helming í veiðifélaginu Streng. Við kaup Ratcliffes eignast hann hlut í enn fleiri jörðum í Vopnafirði en Grænaþing á helminginn í jörðinni Fremri-Núp, fimmtung í Hauksstöðum og rúmlega fjörutíu prósenta hlut í Þorvaldsstöðum.
TIlkynnt var um kaupin á fundi í veiðifélaginu í síðustu viku, að því er fram kemur í Fréttablaðinu.