
Í dómi héraðsdóms kemur meðal annars fram að leitað hafi verið til Rauða krossins, Hjálpræðishersins í Lundúnum og breska sendiráðsins á Íslandi í þeirri von að þessar stofnanir gætu aðstoðað við leitina að manninum. Þær umleitanir hafi ekki skilað neinu.
Þá hafi einnig verið leitað til sendiráðs Íslands í Bretland sem vísaði á vefinn 192.com sem aðstoðar fólk við að hafa uppi á týndum einstaklingum. Hjálpræðisherinn í Lundúnum sagðist ekki aðstoða fólk við að leita að týndum mökum.
Í dómi héraðsdóms kemur fram að hjónin hafi slitið samvistum árið 1976 og ekkert samband haft síðan þá. Hjúskaparstofnunin hafi verið til málamynda og því geri hvorugt þeirra neinar fjárkröfur á hendur hvors annars.
Í dóminum segir einnig að konan hafi leitað til prests árið 1986 sem gaf út vottorð að veita ætti henni leyfi til skilja. Málið var þó aldrei klárað.
Konan reyndi í annað sinn í fyrra en gerði þá þau mistök að hún misfór með nafn mannsins. Var málinu því vísað frá. Í framhaldinu var reynt að hafa upp á manninum en án árangurs.
Héraðsdómur kemst því að þeirri niðurstöðu að skilyrðum 37.greina hjúskaparlaga hafi verið fullnægt en sú grein kveður á um að hafi hjón slitið samvistum vegna ósamlyndis geti hvort þeirra krafist lögskilnaðar þegar samvistaslit hafa staðið í tvö ár hið skemmsta.