Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

„Eiginlega aldrei unnið ærlegt handtak síðan“

Mynd: RÚV / RÚV

„Eiginlega aldrei unnið ærlegt handtak síðan“

18.03.2016 - 15:26

Höfundar

Vinsældir kvikmyndarinnar Með allt á hreinu kom meðlimum hljómsveitarinnar Stuðmanna mjög á óvart og hafði mikil og varanleg áhrif á feril þeirra. Kvikmyndin kom út árið 1982 og fékk mjög mikla aðsókn, en fór þó ekkert rosalega vel af stað.

„Hún byrjaði ekkert voða vel,“ segir Egill Ólafsson, söngvari Stuðmanna. „Aðsóknin var ekki mikil fyrstu tvo mánuðina, en svo allt í einu bara gerist það. Við vorum svona við það að taka hana út úr Háskólabíói og þá allt í einu bara uppselt, uppselt, uppselt. Þá er það að gerast að það koma á hana skólakrakkar og þau koma aftur og aftur. Og menn koma saman í hópum að sjá hana og stemmningin er gífurleg. Menn eru farnir að kunna hluta úr henni og syngja með í bíó.“

„Þetta verður til þess að við það einhvern veginn svona fyllast allir okkar vasar af peningum þarna um stundarsakir og ég, í einhverju bjartsýniskasti, segi upp minni daglaunavinnu,“ segir Valgeir Guðjónsson. „Og hef eiginlega aldrei unnið ærlegt handtak síðan.“

Í kjölfarið hófu Stuðmenn að spila á tónleikum af miklu kappi og seldu alls staðar upp. Stuðmenn gátu farið að lifa af tónlistinni næstu ár.

Popp- og rokksaga Íslands

Hér má sjá brot úr sjöunda þætti sjónvarpsþáttaraðarinnar Popp- og rokksaga Íslands, sem verður á dagskrá á sunnudagskvöldið kl. 20:15 á RÚV. Í þáttunum er farið yfir sögu og þróun rokk- og popptónlistar á Íslandi. Í þáttunum hittum við söngvara, lagahöfunda, upptökustjóra og aðra sem hafa sett svip sinn á blómlegt tónlistarlíf Íslendinga í gegnum tíðina.