Athugið þessi frétt er meira en 10 ára gömul.

Eigandi Monaco undirbýr málshöfðun

18.06.2012 - 17:13
Mynd með færslu
 Mynd:
Margeir Margeirsson, eigandi veitingastaðanna Monaco og Monte Carlo, sakar borgaryfirvöld og lögreglu um að brjóta á sér. Hann undirbýr málshöfðun vegna lögbrota þeirra þegar staðurinn fékk ekki áframhaldandi rekstrarleyfi og segir að að þær verði líklega frekar fleiri en færri.

Innanríkisráðuneytið úrskurðaði í síðasta mánuði að borgarráð hefði ekki farið að lögum þegar það veitti neikvæða umsögn um framlengingu á rekstrarleyfi veitingastaðanna tveggja. Því var synjun lögreglustjórans á áframhaldandi veitingaleyfi felld úr gildi. Borgarráð bókaði á fimmtudaginn í kjölfarið að breyta þyrfti lögum til að hægt væri að nýta ónæði af stöðum sem ástæðu til að synja um rekstrarleyfi.

Margeir Margeirsson, eigandi þessara staða, gefur lítið fyrir þessi rök borgarinnar og bendir á að engin kæra sé tilkomin sem tengist stöðum hans beint. „Það er alveg ljóst að þeir eru búnir að brjóta á mér í sameiningu, lögreglustjórinn og kjörnir fulltrúar borgarinnar. Og það er ekki hægt að í lýðfrjálsu landi að það sé verið að brjóta á fólki úti í bæ af kjörnum fulltrúum,“ segir Margeir.

Og hann stefnir lengra með málið. „Það sem verður skoðað núna í framhaldinu er hver ætlar að bera af þessu lögfræðikostnað, hvort það verði lögreglan eða borgin. En það verður farið vel yfir það hverjir verða kærðir, og þeir verða frekar fleiri en færri.“
Margeir ætlar ótrauður að halda áfram rekstri staðanna. „En ef þeir vilja kaupa þessa staði þá geta þeir gert tilboð ef þetta er þeim svona mikið hjartans mál að þeir séu tilbúnir að brjóta lög til að losna við þá.“