Eigandi Coachella styrkir áfram and-hinsegin málefni

Festival goers attend the Coachella Music & Arts Festival at the Empire Polo Club on Friday, April 12, 2019, in Indio, Calif. (Photo by Amy Harris/Invision/AP)
 Mynd: AP

Eigandi Coachella styrkir áfram and-hinsegin málefni

14.02.2020 - 10:36
Eigandi fyrirtækisins AEG, Philip Anschutz, hefur styrkt samtök sem opinberlega hafa talað gegn málefnum hinsegin samfélagsins. AEG stendur fyrir þó nokkrum tónlistarhátíðum, þar á meðal Coachella, sem er ein sú stærsta í heimi.

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem AEG og Philip Anschutz eru uppvís af því að styrkja svona samtök en árið 2016 varð uppi fótur og fit þegar kom í ljós hvers konar málefni fyrirtækið væri að styrkja. Í kjölfarið fylgdi hörð gagnrýni en það hefur ekki komið í veg fyrir að styrkirnir haldi áfram. Þetta kemur fram á vef Digital Music News þar sem vísað er í skattaskýrslu fyrirtækisins frá árinu 2017. 

Meðal þeirra sem styrktir voru af fyrirtækinu samkvæmt skýrslunni var kristinn háskóli í Colorado, CCU, en í nemendahandbók skólans kemur til að mynda skýrt fram að hinsegin sambönd nemenda séu með öllu bönnuð, sem og opinber stuðningur við slík sambönd.

Eftir að fréttirnar bárust fyrst árið 2016 hafa fjölmargir listamenn, bæði hinsegin fólk og stuðningsfólk slíkra málefna, valið að sniðganga hátíðina. Þannig var Lizzo til að mynda spurð í fyrra hvers vegna hún kysi að taka þátt í hátíð sem er í eigu fyrirtækis sem sýnir slíka andúð gegn hinsegin fólki.

Svör hennar voru á þá leið að hennar hlutverk væri ekki að standa á hliðarlínunni heldur að gera eitthvað í því sem henni fyndist rangt. Stóran pall eins og Coachella ætti að nota til að dreifa ást og stuðningi, til að mynda til hinsegin fólks, hvað sem eigendur hátíðarinnar væru að gera.