Eiga yfir höfði sér allt að ævilangt fangelsi

Mynd með færslu
 Mynd: Eggert Þór Jónsson - RÚV
Mannslátið í Mosfellsdal á miðvikudagskvöld er rannsakað sem brot á 211. grein almennra hegningarlaga, sem kveður á um manndráp af ásetningi. Viðurlögin eru allt að ævilangt fangelsi. Flestir verjenda sakborninganna sex hafa ákveðið að kæra ekki gæsluvarðhaldsúrskurðina og ólíklegt er að hinir geri það.

Sex manns, sem handteknir voru grunaðir um aðild að manndrápinu í Mosfellsdal á miðvikudagskvöld, voru allir úrskurðaðir í gæsluvarðhald í gær. Karlmennirnir fimm sem voru handteknir voru úrskurðaðir í gæsluvarðhaldi til 23. júní en konan sem var handtekin til 16. júní. Fólkið er á aldrinum 29 til 41 árs. Fólkið er allt komið í einangrun í fangelsinu á Hólmsheiði.

Sveinn Andri Sveinsson, verjandi Jóns Trausta Lútherssonar, segir að hann muni nýta sér þriggja sólarhringa frest til þess að ákveða hvort úrskurðurinn verði kærður til Hæstaréttar. Sveinn Andri segir hins vegar óumdeilt að málið sé mjög alvarlegt. Umbjóðandi sinn, og fleiri, hafi verið á staðnum og því nokkurn veginn sjálfgefið að dómstólar samþykki gæsluvarðhaldskröfuna. Hann reikni því síður með því að sakborningarnir kæri úrskurðina. Aðrir verjendur í málinu sem fréttastofa hefur náð tali af hafa sömu sögu að segja.

Sveinn Andri vill ekki tjá sig um atburðarásina á miðvikudaginn, en segir þó aðspurður að umbjóðandi hans hafi ekki verið undir áhrifum neinna vímuefna kvöldið örlagaríka.

Handtökur á tveimur stöðum

Grímur Grímsson yfirlögregluþjónn, sem stýrir rannsókninni, segir að henni miði ágætlega. Grímur segir að handtökurnar á miðvikudagskvöld hafi farið fram á tveimur stöðum.

„Það voru þrír handteknir í Mosfellsdal, á vettvangi, en það voru þrír handteknir í bíl á Vesturlandsvegi,“ segir Grímur.

Hvers vegna var stúlkan úrskurðuð í styttra gæsluvarðhald en hinir fimm?

„Ástæðuna tel ég vera þá að dómarinn hafi talið að tengsl hennar við atburðarrásina hafi ekki verið þannig, og að ekki hafi verið sýnt fram á þau með þeim hætti, að henni bæri að vera svona lengi í gæsluvarðhaldi.“

Samkvæmt heimildum fréttastofu er talið að þáttur tveggja manna í árásinni sé meiri en hinna. Þetta vill Grímur þó ekki staðfesta. Þá segir Grímur að það liggi ekki endanlega fyrir, hver dánarorsök mannsins var. Aðspurður segir Grímur að árásin varði 211. grein almennra hegningarlaga sem kveður á um manndráp af ásetningi, þar sem viðurlögin eru allt að ævilangt fangelsi. 

„Þetta er manndrápsrannsókn og þannig er hún uppbyggð. Auðvitað geta einhverjir verið grunaðir um líkamsárás en engu að síður er um að ræða rannsókn á manndrápi.“

Þannig að 211. grein er þar undir?

„Já,“ segir Grímur.

 

johann's picture
Jóhann Bjarni Kolbeinsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi