Athugið þessi frétt er meira en 10 ára gömul.

Eiga erfitt með að eignast vini

22.02.2011 - 19:09
Mynd með færslu
 Mynd:
Börn flóttafólks á Íslandi finna fyrir spenningi og velvilja í sinn garð, sérstaklega þegar þau hafa nýhafið skólagöngu. Áhuginn dalar þó fljótt og þeim finnst erfitt að eignast vini. Viðhorf samfélagsins og skólafélaganna til þeirra sem ekki eiga íslensku að móðurmáli er þeirra helsti vandi.

Í rannsókn félagsráðgjafanna Guðbjargar Ottósdóttur og Helenu N. Wolimbwa ræddu þær við fjórtán flóttabörn á aldrinum tíu til átján ára um félagslega stöðu þeirra og líðan. Börnin eru mörg hver ánægð með þær móttökur sem þau hafa fengið en segja erfitt að eignast vini.


Helena segir að þörf sé á því að skoða betur viðhorf samfélagsins til flóttabarna og annarra innflytjendabarna.


Í rannsókninni kemur í ljós að flóttabörnin taki lítinn þátt í íþróttum og tómstundum. Þau leiti lítið til starfsfólks skólanna með sín vandamál heldur reyni þau frekar að gera eitthvað sem þeim finnst skemmtilegt til að gleyma vandanum.


Flóttabörnin segjast daglega aðstoða foreldra sína við innkaup og í samtölum við stofnanir eins og banka með því að túlka fyrir þá. Ekki nóg með það heldur túlka þau einnig fyrir foreldrana í læknisheimsóknum þó svo foreldarnir eigi þar lagalegan rétt á túlki.


Þá kom einnig fram að flóttabörnin fá enga kennslu í sínu eigin móðurmáli, þó vitað sé að það er lykilatriði fyrir góða sjálfsmynd innflytjenda að vera vel að sér í bæði eigin tungumáli og máli nýja landsins.


Þau sjá þó ekki framtíð sína á Íslandi. Þau sjá þó ekki endilega fyrir sér að fara til síns heimalands heldur bara eitthvað annað land þar sem móðurmál þeirra er talað eða þar sem svipuð menning er.