Athugið þessi frétt er meira en 9 ára gömul.

Eiga ekki skilið að vera háttvirtir

11.09.2013 - 17:16
Mynd með færslu
 Mynd:
Jón Þór Ólafsson þingmaður Pírata segist ekki ætla að vísa til þingmanna og ráðherra með titlunum háttsettur og hæstvirtur, eins og föst þingvenja kveður á um, þar til þingmenn hafa unnið fyrir titlunum. Í staðinn segist Jón Þór ætla að vísa til þeirra undir titlunum herra, frú og jafnvel fröken.

Í umræðum um fundarstjórn í dag sagði Jón Þór að ljóst væri að þingmenn hefðu ekki unnið fyrir titlunum að mati þjóðarinnar. „Tökum okkur ekki sjálfkrafa virðingartitil sem þjóðinni finnst ekki að við eigum skilið," sagði hann. Ragnheiður Ríkharðsdóttir þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins svaraði Jóni Þór og sagði að heppilegra væri að þingið tæki ákvörðun um að breyta aldagömlum venjum en ekki einstaka þingmenn.

Jón Þór steig aftur í pontu á eftir Ragnheiði og ávarpaði hana sem frú. Einhver spyrði úr salnum hvort Ragnheiður væri örugglega frú. „Er hún frú spyr hún, ég þarf að tékka á þessu," sagði Jón Þór.

Að umræðu lokinni bað forseti þingsins þingmenn að hafa áfram þessa þingvenju í heiðri, að ávarpa þingmenn sem háttvirtan og ráðherra sem hæstvirtan.