Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Eiga ekki að geta sniðgengið lög

16.10.2019 - 19:33
Mynd með færslu
 Mynd: Skjáskot - RÚV
Iðnaðarmálaráðherra segir að frumvarp um smálánafyrirtæki, sem hún mælti fyrir á Alþingi í dag, sé liður í því að taka á óhagstæðum, óskynsömum og ólöglegum smálánum. Lögin eigi að tryggja að ólögmæt smálánastarfsemi standi ekki undir sér en mega ekki bitna á lögmætri lánastarfsemi, samkeppni og framboði á neytendalánum.

Þórdís Kolbrún Gylfadóttir Reykfjörð, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, sagði að markmiðið með frumvarpinu væri að draga úr skuldavanda neytenda vegna smálánaskulda. Eftir umræður á þingi er frumvarpið nú gengið til annarrar umræðu hjá efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis. 

Vilja draga úr skuldavanda vegna smálánaskulda

Undanfarin ár hafa smálánafyrirtæki reynt að sniðganga lög um að hámarkslánskostnaður fari ekki yfir 50 prósent af láni auk stýrivaxta, meðal annars með því að skrá starfsemi í Danmörku.

Með frumvarpinu á að taka af tvímæli um að íslensk lög gildi um lán yfir landamæri og jafnframt á að setja ákvæði um viðurlög. Þá eigi að búa svo um að fólk greiði ekki kostnað af lánum umfram það hámark sem lögin mæla fyrir um, sagði Þórdís Kolbrún.

Fleiri aðgerðir boðaðar á næstunni

Þá komi til greina að skoða að lækka fimmtíu prósenta hámarkið, en nokkrir þingmenn töldu hámarkið of hátt miðað við hvað gengur og gerist í öðrum ríkjum. 

Þórdís sagði að fleiri aðgerðir í þessum málum yrðu boðaðar á næstunni. Til dæmis standi til að fjármálaráðuneytið leggi fram frumvarp á næstunni sem tryggi að ólögmætur lánakostnaður verði ekki innheimtur.

Fannst frumvarpið ekki ganga nógu langt

Brynhildur Pétursdóttir, framkvæmdastjóri Neytendasamtakanna, sagði í hádegisfréttum að frumvarpið gengi ekki nægilega langt. Samtökin hefðu gert um fimmtán athugasemdir við það.

Nokkrir þingmenn tóku í sama streng. Oddný G. Harðardóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, sagðist hafa orðið fyrir miklum vonbrigðum með frumvarpið. Það taki ekki á stærsta vandanum. Til að mynda þyrfti að gera smálánastarfsemi leyfisskylda. Það væri gott vopn að geta tekið leyfi af þeim fyrirtækjum sem færu ekki að lögum, sér í lagi í ljósi þess að önnur úrræði, svo sem beiting stjórnvaldssekta, hafi ekki skilað sér. 

Fleiri úrræði koma til greina

Oddný, og Elvar Eyvindsson, þingmaður Miðflokksins, fjölluðu um önnur úrræði, svo sem að banna smálánaveitingu á ákveðnum tímum, svo sem að nóttu til og um helgar, eða búa svo um að lánin skili sér ekki fyrr en nokkrum dögum eftir lántökuna. Iðnaðarmálaráðherra sagði að þetta yrði skoðað.  

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, þingmaður Vinstri grænna, sagði að lánataka ætti ekki að vera svona einföld eins og í tilviki smálána. Þá sagði Guðmundur Ingi Kristinsson, þingmaður Flokks fólksins, að sömu reglur ættu að gilda um lánastarfsemi smálánafyrirtækja og banka.