Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Eiga að geta „horft á danskan þátt með maka“

25.08.2017 - 09:00
Einar Brynjólfsson sést hér með þverslaufu til vinstri í þingsal. - Mynd: Eggert Þór Jónsson / RÚV
Þingflokksformaður Pírata segir ríkisstjórnina koma litlu í verk. Þinghlé sé alltof langt og þess vegna sé ekki unnt að veita ríkisstjórninni nægilegt aðhald. Þá gagnrýnir hann að þingfundir standi jafnvel til miðnættis. „Þá á fólk að vera komið heim til sín og koma börnum í rúm og horfa á danskan þátt með makanum og borða popp og drekka kók,“ segir Einar Brynjólfsson, þingflokksformaður Pírata.

Þinghlé hófst á Alþingi 1. júní síðastliðinn og þingsetning verður 12. september. Ríkisstjórnin hefur fundað í þinghléi. Einar gagnrýnir, í viðtali á Morgunvaktinni á Rás eitt, það hversu langt þinghlé sé.

„Þetta er verklítil ríkisstjórn og meðan hún passar sig á því að vera verklítil þá gerir hún ekkert rangt. Menn hafa svo sem verið að fetta fingur út í það að hún hafi fundað sjaldan ríkisstjórnin. Það breytir því svo semekki að það er eflaust verið að vinna þarna í mörgum málum. En vandinn er sá að við þingmenn erum ekki á staðnum til þess að benda á og núa fingri ofan í sárið og benda á: þetta er verið að gera og þetta er rangt,“ segir Einar. 

Telur hann að þinghlé sé of langt? „Já þinghlé er alltof langt,“ segir Einar. Þingmenn séu ekki í löngu sumarfríi því mikið sé um fundahöld. Sjálfur hafi hann fengið þrjár vikur.

„Algjörlega galið“
„Auðvitað á þingið að starfa lengur. Þingið þarf að verða fjölskylduvænna. Við þurfum að hætta þessari skorpuvinnu. Það eru ekkert sérstaklega góð vinnubrögð þegar menn eru að vinna kannski 20 tíma á sólarhring, marga daga í röð, til þess eins að ná að ljúka þingi á einhverri ákveðinni dagsetningu. Mér finnst það algjörlega galið,“ segir Einar.

„Að sama skapi finnst mér algjörlega út í hött að vera að hafa þingfund á þriðjudögum fram til t.d. tíu eða tólf. Þá á fólk að vera komið heim til sín og koma börnum í rúm og horfa á danskan þátt með makanum og borða popp og drekka kók og safna orku og mæta til vinnu daginn eftir, uppfullt af orku og löngun til að gera vel fyrir land og þjóð,“ segir Einar, og bætir við: „Ég er ekki hræddur við að vinna en ég vil bara hafa það jafnara,“ segir Einar.