Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Eiga að fá að stjórna ferðinni í eigin lífi

Mynd: Samfylkingin / Samfylkingin
Borgarráð samþykkti í gær endurskoðaða stefnu í málefnum heimilislausra. Heiða Björg Hilmisdóttir, formaður velferðarráðs Reykjavíkurborgar, segir það gleðiefni. Aldrei hafi fleiri verið heimilislausir svo vitað sé og fólki í þessari stöðu fjölgi. Það sé í takt við þróunina í öðrum vestrænum ríkjum.

Þessi hópur fólks, sem er jafn fjölbreyttur og aðrir hópar samfélagsins, er oft með miklar og flóknar þjónustuþarfir og þarf fjölþættan stuðning, segir hún. Um þrjú hundruð manns tilheyri hópnum. Þar af bíði um sjötíu eftir úrræði og húsnæði frá borginni, sem nú er unnið að því að útvega.

Stjórni ferðinni í eigin lífi

Stefnan, sem samþykkt var í gær í borgarráði, gengur út á að fjölga skammtíma- eða neyðarúrræðum til skemmri tíma. Á sama tíma verður unnið að því að byggja upp varanleg úrræði og búsetu með þjónustu, fyrir þennan hóp fólks, á þeirra forsendum, segir Heiða Björg.

Fólk hafi verið beðið um að breyta lífsháttum sínum áður en það fékk úthlutað húsnæði hér áður fyrr. Nú er unnið með skaðaminnkandi stefnu og valdið og ábyrgðin færð til þeirra sem þurfa á þjónustunni að halda, segir hún. Þeir stjórni frekar ferðinni í eigin lífi. Helst sé reynt að tryggja að fólk hafi möguleika á því að eiga eins gott líf og mögulegt er.

Skortir umburðarlyndi

Deiliskipulag smáhýsa fyrir heimilislaust fólk með fjölþættan vanda hefur verið samþykkt og stefnt er á að byggja um tuttugu smáhýsi fyrir áramót. Heiða segir að þau vilji dreifa hýsunum um borgina. Þau þurfi að vera nálægt þjónustu, almenningssamgöngum og á góðum stað.

Hins vegar hafi reynst erfitt að finna stað fyrir smáhýsin. Heiða segir að það skorti umburðarlyndi hjá okkur öllum. „Ef það er eitthvað sem við þekkjum ekki þá erum við tortryggin.“

Þetta fólk vanti varanlegt húsnæði. „Þau verða hvorki hættulegri eða minna hættulegri þótt þau fái hús. Þetta er ekkert hættulegra fólk en við. Ég hef fulla trú á að þetta geti breytt miklu fyrir okkur, sérstaklega fyrir þá einstaklinga sem eiga hvergi heima og vantar heimili. Að geta boðið þá velkomna í hverfi borgarinnar held ég að sé mjög mikilvægt.“ 

Fólki finnist það ekki tilheyra samfélaginu

Forvarnir gegn heimilisleysi þurfi að vera víðtækari. Það þurfi einnig að horfa til þess hvernig samfélagið sé byggt upp.

Fleiri og fleiri upplifi samfélagið þannig að þeirra framlag sé ekki velkomið eða að það sé ekki hluti af samfélaginu. Því þurfi allir að horfa í eigin barm og skoða hvort það er eitthvað við þessa samfélagsgerð, sem verið er að byggja upp víða í Evrópu, sem geri það að verkum að fólki finnist það ekki tilheyra, segir Heiða Björg.