Eggið sem braut Instagram

Mynd með færslu
 Mynd:

Eggið sem braut Instagram

14.01.2019 - 13:16

Höfundar

Í nótt var met slegið á Instagram þegar rúmlega 26 milljónir manna settu læk við ofurvenjulegt egg og hrinti eggið þannig úr sessi fyrri methafa, raunveruleikastjörnunni Kylie Jenner. Instagram er sérhæfður sjónrænn miðill, yfirráðasvæði áhrifavalda og gjarnan uppspretta umræðu um óraunhæfar útlitskröfur. En eggið tekur engan þátt í slíku.

Myndin af egginu var birt á Instagram fyrir 10 dögum, þann 4. janúar. Ljósmynd af barneigna-tilkynningu Kylie Jenner (sem er raunveruleikastjarna úr Kardashian-fjölskyldunni) hafði haldið titlinum fram að því með 18 milljónir læka. Verður sú ljósmynd að teljast afskaplega hefðbundinn methafi í því umhverfi sem hefur skapast inni á forritinu. Þar hafa myndir frá poppstjörnum, fyrirsætum og íþróttafólki skipað efstu sætin og í nánast öllum tilfellum tengist myndin barneignum.

 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 

stormi webster

A post shared by Kylie (@kyliejenner) on

Það er í rauninni ekkert sérlega merkilegt eða nokkuð sem stingur í stúf þegar myndin af egginu er skoðuð. Þetta er létt-freknótt ljós-appelsínugult egg á hvítum bakgrunni og sambærilegt egg má finna í hvaða stórmarkaði sem er. Öllu heldur eru vinsældir eggsins vafalaust til marks um eitthvað annað, ef til vill þreytu notenda á áhrifavöldum, glysi og tilbúnum glamúr. Reikningurinn sem á myndina af egginu kallast hinu lýsandi nafni world_record_egg, en sé prófíll notandans skoðaður kemur fram að í forsvari fyrir eggið sé EGG GANG, eða Eggja-gengið.

Og Eggja-gengið á vafalaust í fullu fangi með að svara fyrir bíræfna eggið en Kylie Jenner hefur svarað fyrir sig í eftirfarandi myndbandi sem birtist á Instagram í morgun. Yfirskrift myndbandsins er: „Hafðu þetta, litla egg.“

 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 

Take that little egg

A post shared by Kylie (@kyliejenner) on