Ég vil vera dýrkaður og dáður

Mynd með færslu
 Mynd: Tidal Read

Ég vil vera dýrkaður og dáður

11.05.2019 - 09:35

Höfundar

Fyrsta hljómplata hljómsveitarinnar The Stone Roses frá Manchester kom út fyrir þrjátíu árum og enn hljómar upphafslagið, I Wanna Be Adored, eins og upptaktur að einhverju nýju, eins og upphaf nýrrar byltingar. Kannski var það raunin.

Hljómsveitin The Stone Roses starfaði á Englandi frá 1983 til 1996 og var tvímælalaust sú sveit sem ruddi brautina fyrir indígítarrokkið svokallaða og ekki síst sem undanfari britpop-bylgjunnar sem seinna kom. Áhrifin má heyra glöggt í tónsmíðum Blur og Oasis og þeirra sem seinna komu, svo ekki sé talað um danstónlistina sem réð ríkjum á Bretlandi sem annars staðar upp úr 1990. The Stone Roses er skipuð eilífðartöffaranum og söngvaranum Ian Brown, myndlistarmanninum og gítarleikaranum John Squire, bassaleikaranum Gary „Mani“ Mounfield og trommaranum Alan „Reni“ Wren.

Mynd með færslu
 Mynd: Tidal Read
The Stone Roses árið 1989, f.v. Reni, Ian Brown, Mani og John Squire.

Stiklað á stóru

Svo stiklað sé á stóru í sögunni voru þeir Ian Brown og John Squire nágrannar í æsku, bjuggu við sömu götu í suðurhluta Manchesterborgar. Þeir þekktust lítillega en það var ekki fyrr en á skólalóðinni, þegar einhverjir níðingar stríddu John Squire, að Ian Brown kom aðvífandi og bjargaði honum frá frekari áreitni. Frá þeirri stundu urðu þeir vinir og sálufélagar. Á meðan John Squire var meira Beach Boys-megin í lífinu var Ian Brown staðráðinn í að breyta því og fékk Squire til þess að hlusta meira á The Clash og Sex Pistols. Ekki leið svo á löngu þar til fyrsta tónlistarverkefnið leit dagsins ljós, hljómsveitin The Patrol sem spilaði tónlist í anda The Clash. Þar lék Brown á bassa, Squire á gítar og með þeim spilaði trommarinn Simon Wolstencroft, sem var síðar boðin staða trommara The Smiths en þekktist það ekki, og gítarleikarinn Andy Couzens sem söng einnig. The Patrol spilaði talsvert á tónleikum og rataði í hljóðver en eftir nokkra mánuði höfðu hlutirnir breyst og verkefnið fjarað út.

Þeir Squire og Andy Couzens héldu áfram að búa til tónlist saman og stofnuðu hljómsveitina Waterfront. Þá hafði bassaleikarinn Gary Mounfield slegist í hópinn. Söngvari þeirrar sveitar var fljótlega rekinn og lagði þá Squire til að Ian Brown yrði ráðinn í hans stað en Brown hafði daðrarð við hljóðnemann á síðustu metrunum sem bassaleikari The Patrol. Ekki varð þessi sveit langlíf en Couzens vildi þó reyna til þrautar og stofnaði enn aðra sveit, með Ian Brown við hljóðnemann, trommarann Wolstencroft, bassaleikarann Peter Garner og loks John Squire. Nú átti ekki að tjalda til einnar nætur og var Brown sendur í söngnám. John Squire lagði til að nafn nýju sveitarinnar yrði The Stone Roses. Simon Wolstencroft heltist svo úr lestinni og auglýst var eftir nýjum trommara. Alan Wren svaraði kallinu. Þá var Couzens rekinn úr sveitinni, af nýráðnum umboðsmanni vegna slælegrar frammistöðu á einum tónleikunum, og loks vildi bassaleikarinn Peter Garner snúa sér að öðru. Þá var Gary Mounfield úr Waterfront kallaður til. Eftir stóðu þá fjórmenningarnir sem sköpuðu frumraun The Stone Roses og hljómplatan góða leit dagsins ljós í byrjun maí 1989.

Þegar þessi skipan The Stone Roses varð fullkomnuð urðu þáttaskil í tónlistinni. Taktvissir og dansvænir tónar urðu æ meira ríkjandi. „Þegar Mani (Gary Mounfield) kom loks inn sem síðasta spilið þá breyttist allt á einni nóttu. Það varð allt annað grúv, einhvern veginn féll allt í réttar skorður,“ sagði söngvarinn Ian Brown um aðkomu bassaleikarans Mani. Upp úr nýjum tónum og töktum á tónleikastöðum Manchesterborgar upphófst ný menningar-bylting. Sú var kölluð Madchester og er eignuð meðlimum Stone Roses, og eins Manchester-sveitunum Happy Mondays og 808 State sem og The Charlatans og Inspiral Carpets. Þá má nú til sanns vegar færa að bylgjan atarna sé smituð af eldri sveitum borgarinnar, eins og The Smiths, The Fall og New Order. Madchesterbylgjan leiddi af sér umtalsvert meiri dansmenningu á klúbbum, dansvæddi rokktónlistina og innleiddi skrautlega síkadelíu í bland við anda sjöunda áratugarins í menningu og listum. 

Efnið og andinn

Hvað inniheldur svo þessi þrjátíu ára frumraun The Stone Roses? Þarna má finna ellefu dansvæna smelli, léttpoppaða, suma sýrukennda, og yrkisefni sem kemur vissulega úr ýmsum áttum. Það verður þó að geta þess sérstaklega að eitt helsta einkennislag Madchester-bylgjunnar, Stone Roses lagið Fools Gold er ekki á þessari plötu. Það lag þykir sýna hvað best samspil þeirra Mani og Reni og varð eflaust til þess að fjölmargir rokkarar með dansfóbíu fundu fjölina. Eitt þekktasta lag plötunnar sem hér er til umfjöllunar er I Wanna Be Adored, þar sem textinn er bein gagnrýni á stjörnudýrkun fólks en fór vafalaust öfugt ofan í marga. Lagið Waterfall fjallar um flóttann frá raunveruleikanum, inntakið í laginu Bye Bye Badman er sótt í stúdentaóeirðirnar í Frakklandi 1968 og í Elisabeth My Dear vill sögumaðurinn koma drottningunni fyrir kattarnef. Loks eru það lokalögin tvö, ópusarnir This Is the One, sem er fullt af Biblíutilvísunum og má heyra í sífellu á Old Trafford á kappleikjum Manchester United og hið stórkostlega I Am The Resurrection, Ég er upprisan. Þrátt fyrir trúarlegan undirtón sverja þeir allt svoleiðis af sér. 

Mynd með færslu
 Mynd: Tidal Read
Listaverk John Squire “Bye Bye Badman“ sem prýðir umslag plötunnar The Stone Roses.

Stór hluti þess að upplifa tónlist og sögu The Stone Roses er hinn sjónræni þáttur. Gítarleikarinn og myndlistarmaðurinn John Squire er ábyrgur fyrir ásjónu sveitarinnar og sækir hann aðalinnblástur sinn til bandaríska myndlistarmannsins Jacksons Pollock. Pollock var kunnur fyrir athafnamálverk sín, þar sem striginn liggur á gólfinu og málningunni er skvett í fallegri óreiðu. Þannig verður úr listræn ringulreið áferðar og hreyfingar. Squire tók upp þessa aðferð og tókst vel til, eins og umslag plötunnar er til marks um. Verk Squire á umslagi plötunnar heitir Bye Bye Badman, eins og eitt lag plötunnar. Lagið vísar í stúdentaóeirðirnar í Frakklandi 1968 og á umslaginu má einnig sjá frönsku fánalitina og sítrónur sem eru þar ekki fyrir neina tilviljun. Ian Brown hitti eitt sinn Frakka sem tók þátt í uppþotunum og sagði sá að mótmælendur hefðu notað sítrónur sem mótefni við táragasi.

Endurkoman

Saga hljómsveitarinnar hefur verið brokkgeng frá útgáfu frumraunarinnar. Henni var fylgt eftir með plötunni Second Coming fimm árum síðar, 1994. Viðtökurnar voru heldur mistækar og þótti tónlistin heldur rokkaðri og blúsaðri en áður og minnti á Led Zeppelin og álíka sveitir. Hljómsveitin hætti litlu síðar en átti þó vel heppnaða endurkomu, eða upprisu, 2012 og spilaði á nokkrum tónleikum allt til ársins 2017 og gaf út tvö ný lög. Meðlimir Stone Roses komu þó víða við undir öðrum merkjum, Mani gekk til liðs við hljómsveitina Primal Scream, John Squire stofnaði The Seahorses og Ian Brown hefur átt góðan sólóferil og gaf nýverið út frábært lag. Stone Roses tókst sannarlega að blanda góðan graut í upphafi tíunda áratugar síðustu aldar, með gítarrokki, danspoppi, pólitík, sýru frá sjöunda áratugnum og grafískri ásýnd auk þess að móta tísku ungmenna í sveppagreiðslum, veiðihöttum og pokavíðum buxum. Hvort hægt er að beintengja danstónlist tíunda áratugarins, bæði reiftónlistina og britpoppið, eingöngu í Stone Roses er kannski tæpt en það er ljóst að þeir ruddu brautina á sínum tíma og urðu mikilvæg brú fyrir það sem á eftir kom.