„Ég þekki sársaukann og þjáninguna“

Mynd: RÚV / RÚV

„Ég þekki sársaukann og þjáninguna“

05.12.2016 - 11:59

Höfundar

Rithöfundurinn Steinar Bragi segir að nýútkomin bók hans fjalli voðalega mikið um ást, hræðilegar afleiðingar hennar og sambandsslit. Hann segir að ástarsambönd fari venjulega afskaplega illa, í það minnsta endar helmingur þeirra með skilnaði.

Bókin heitir Allt fer og hefur að geyma 19 smásögur. Steinar Bragi hlaut tilnefningu til Íslensku bókmenntaverðlaunanna fyrir bókina á dögunum.

Skrifar allt sem hann hugsar

„Ég er alveg laus við að vera feiminn eða spéhræddur þegar kemur að því sem ég skrifa. Í persónulegum samtölum er ég miklu feimnari og vil gjarnan fela mig. Ég hef einhvern veginn vanið mig á það, frá því ég var ungur, að skrifa nákvæmlega það sem ég er að hugsa og ganga frekar fram af mér heldur en að fara í hina áttina,“ segir Steinar Bragi sem byggir sögurnar mikið á sjálfum sér og eigin reynslu. 

Erfiður tími

Hann segist kunna illa við aðventuna og jólabókaflóðið. „Manni líður eins og hamstri sem er rekinn undan rúmi með látum. Að vera rithöfundur sem hangir einn í herbergi og skrifar í eitt, tvö ár og á svo að mæta í sjónvarpið og tala bara um þetta eins og þetta sé eitthvað einfalt mál. Tala um það í svona 100 orðum, eitthvað sem ætti að taka mann 750.000 orð og hefur tekið mann það mörg orð í verkinu,“ segir hann.  

Sársauki og þjáning í aðalhlutverki

Steinar Bragi sagði í viðtali við Fréttablaðið fyrir helgina að það ætti aldrei að treysta grönnum kokki eða hamingjusömum listamanni. „Ég stend við þetta. Ég þekki sársaukann og þjáninguna. Flestar sögur sem eru sagðar og eru góðar, þær varða breytingu frá einu ástandi í annað. Sú breyting er yfirleitt fyrir sársauka í lífi fólks. Það sem mótar okkur mest af öllu í lífinu eru yfirleitt erfiðir atburðir. Ég er ekki að segja að það sé ekki margt gleðilegt í lífinu en ég hef mestan áhuga á því sem breytir okkur með erfiðismunum og reynslu sem dregur okkur úr einu ástandi í annað þvert gegn vilja okkar jafnvel.“

Tengdar fréttir

Bókmenntir

Steinar Bragi leikur sér að lesendum

Menningarefni

Umdeild stöðufærsla vekur spurningar um ábyrgð

Innlent

Steinar Bragi með nýja hrollvekju