Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

„Ég samhryggist þeim sem kynna sér ekki mál“

Mynd: RÚV / RÚV

„Ég samhryggist þeim sem kynna sér ekki mál“

21.10.2019 - 13:36

Höfundar

Aðeins einn þingmaður greiddi atkvæði gegn frumvarpi um staðfesta sambúð samkynhneigðra árið 1996. Forvígisfólk Samtakanna 78 þurfti þó að berjast fyrir framgangi þess og deildi hart við ýmsa sértrúarhópa á opinberum vettvangi.

Málið var rifjað upp í þættinum Svona fólk sem var á dagskrá RÚV í gær. Í þáttunum er fjallað um sögu og mannréttindabaráttu samkynhneigðra á Íslandi. Aðeins einn þingmaður greiddi atkvæði gegn frumvarpinu um staðfesta samvist samkynhneigðra, Árni Johnsen. „Það er mín sannfæring að kynvilla sé skekkja,“ sagði hann í fyrstu umræðu um frumvarpið á Alþingi. Áður en frumvarpið var samþykkt háðu Samtökin 78 harða baráttu við ýmsa sértrúarhópa, ekki síst Gunnar Þorsteinsson í Krossinum. Þau Margrét Pála Ólafsdóttir, þáverandi formaður samtakanna, deildu hart og oft á fundum og í sjónvarpssal í aðdraganda atkvæðagreiðslunnar um frumvarpið. 

„Við erum komin inn á veg sem endar með vegleysu, og það verður að spyrna við fótum og hugsa sinn gang,“ sagði Gunnar í umræðuþætti í sjónvarpi sumarið 1996 en hafði ekki erindi sem erfiði. „Ég samhryggist fólki sem kynnir sér ekki mál og skoðar ekki mál. Þetta er ekki svara vert,“ svarar Margrét Pála. „Hún bara vann slaginn við Gunnar í Krossinum. Tók hann á rökum og hafði betur. Fólki ofbauð hans málflutningur. Þjóðin féllst á hennar rök og hafnaði hans,“ segir Rannveig Traustadóttir félagsfræðingur. „Hann var nú eina röddin sem heyrðist svona skerandi falskt í,“ segir Lana Kolbrún Eddudóttir sem var formaður samtakanna 78 á árunum 1989-1990 og 1993-1994. Margrét Pála er ánægð með hversu víðtæk sátt náðist á sínum tíma. „Þannig að þegar að loksins lögin urðu að veruleika var það með gríðarlega góðri samstöðu hjá þjóðinni. Þetta var ótrúlegt að upplifa stemmninguna,“ segir Margrét Pála í dag.

Í fjórða og næstsíðasta þætt Svona fólks var fjallað um hörmungaár alnæmisins í samfélagi samkynhneigðra, þegar ný kynslóð fjölmiðlafólks átti ríkan þátt í vitundarvakningu, og Samtökin '78 mörkuðu skýra stefnu í mannréttindamálum. Þá er rifjuð upp baráttan fyrir staðfestri samvist og upphafsár Gay Pride/Hinsegin daga í Reykjavík. Hægt er að horfa á þáttinn í fullri lengd sem og eldri þætti í spilaranum.

Tengdar fréttir

Sjónvarp

„Kynvillingar eru sjúkt fólk“

Sjónvarp

Persónuleg heimildarmynd um réttindabaráttu

Sjónvarp

Hjartað stoppaði og tárin spýttust fram

Kvikmyndir

„Það var bara hreinlega allt bannað“