„Ég óttaðist mjög að ég hefði gert mistök“

02.12.2019 - 17:43
Mynd með færslu
 Mynd: Birgir Þór Harðarson
Þingmenn stjórnarandstöðunnar deildu á Steingrím J. Sigfússon, forseta Alþingis, á þingfundi í dag. Steingrímur leyfði þingmanni að skipta um ráðherra sem hann hugðist spyrja í óundirbúnum fyrirspurnum eftir að fyrirspurnatími hófst. Steingrímur sagðist síðan hafa gert mistök og að þetta yrði ekki leyft í framtíðinni. Stjórnarandstæðingar voru ósáttir og töldu sumir að forseti væri að taka að sér að ritstýra spurningum stjórnarandstöðuþingmanna.

Þorsteinn Víglundsson, varaformaður Viðreisnar, hafði skráð sig með fyrirspurn á umhverfis- og auðlindaráðherra í óundirbúnum fyrirspurnum en bað um að fá að spyrja Lilju Alfreðsdóttur menntamálaráðherra í staðinn. Þetta gerði hann eftir að Þorsteinn Sæmundsson, þingmaður Miðflokksins, spurði Lilju út í ráðningarferli útvarpsstjóra.

Steingrímur varð við beiðni Þorsteins en tók til máls eftir að ráðherra hafði svarað fyrirspurninni. „En í ljósi þess sem kom fram síðar að tilefnið var nýtt til að bera fram fyrirspurn sem þegar hafði verið borin upp og svarað lítur forseti svo á að hann hafi gert mistök.“ Steingrímur úrskurðaði að hér eftir yrði ekki hægt að breyta skráningu á óundirbúinni fyrirspurn eftir að þær hæfust. „Þessi fyrirspurnatími er ekki hugsaður þannig að hann breytist í kappræður og menn geti valið sér eftir því hvernig umræðan fram vindur [ráðherra til svara]. Þess vegna ber mönnum að skrá þá inn um leið og þeir biðja um orðið.“

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV

Undruðust ákvörðun Steingríms

Þingmenn stjórnarandstöðu brugðust við og gerðu athugasemdir við störf forseta. 

Hanna Katrín Friðriksson, þingflokksformaður Viðreisnar, sagðist ekki átta sig á því hvað í orðum Þorsteins Víglundssonar hefði orðið til þess að Steingrímur brygðist við með þessum hætti.

Þorsteinn kvað sér einnig máls og undraðist úrskurð Steingríms. „Ég sé ekki betur en hér sé einfaldlega vegið að frelsi okkar þingmanna til óundirbúinna fyrirspurna til hæstvirtra ráðherra.“ Þorsteinn sagðist hafa talið svar menntamálaráðherra þess eðlis að það krefðist frekari spurninga og svara.

Vildu endurskoða úrskurð

Fleiri þingmenn brugðust við. Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingmaður Pírata, las upp úr þingskaparlögum og sagði ekkert þar kveða á um efni og innhald þeirra spurninga sem þingmenn mættu spyrja í óundirbúnum fyrirspurnatíma.

Oddný Harðardóttir, þingflokksformaður Samfylkingarinnar, óskaði eftir því að forseti endurskoðaði úrskurð sinn og tóku nokkrir þingmenn undir með henni. Hún sagðist hafa verið all nokkra hríð á Alþingi og kvaðst ekki muna að ósk eins og sú sem Þorsteinn bar fram hefði valdið vandræðum áður. Hún sagði úrskurð forseta óþarfan og grafa undan fyrirspurnatíma þingmanna.

Mynd með færslu
 Mynd: Skjáskot - RÚV
Alþingi fyrr í haust.

Forseti þurfi svigrúm til að úrskurða

Birgir Ármannsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, sagði að ákvæði þingskapa um óundirbúnar fyrirspurnir væru fáorð svo veita þyrfti forseta svigrúm til að meta hvernig hann framkvæmir fyrirspurnatíma. Birgir sagði að í upphafi þingferils síns hefðu það einkum verið formenn stjórnarandstöðuflokka sem spurðu forsætisráðherra og oddvita ríkisstjórnarflokka í óundirbúnum fyrirspurnatímum. Síðan hefði fyrirspurnatími breyst með samkomulagi en ekki breytingum á þingsköpum. „Forseti þarf í þessu tilviki eins og mörgum öðrum að beita dómgreind sinni til að komast að niðurstöðu um álitamál. Ég held að forseti hafi gert það af góðum hug í þessu máli.“

„Þetta er asnalegt og það er óréttlátt að koma svona fram,“ sagði Halldóra Mogensen, þingmaður Pírata.

Hvatti til breytinga

Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, sagði eðlilegt að breyta fyrirkomulagi óundirbúinna fyrirspurna. Nú tilkynna þingflokksformenn hvaða þingmaður ætlar að spyrja hvaða ráðherra um hvaða efni. Logi vill að þessu verði breytt þannig að þingflokksformenn tilkynni einfaldlega hver ætli að spyrja. Það komi svo bara í ljós í ræðustóli hvaða ráðherra fær fyrirspurnir. Þetta tóku sumir stjórnarandstæðingar undir

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, þingmaður Vinstri grænna, sagðist ekki muna eftir því að þingmaður hafi óskað eftir því að breyta fyrirspurn eftir að óundirbúnar fyrirspurnir voru hafnar. „Mig renndi ekki í grun að það væri hægt að óska eftir þessu þegar fyrirspurnartíminn er hafinn. Ég hef alltaf skilið það svo þennan prótókól,“ sagði Bjarkey. „Ég styð forseta í þessu.“

Mynd með færslu
 Mynd: Birgir Þór Harðarson - RÚV

Engin fordæmi

Steingrímur sagði í lok umræðunnar að það hefði runnið upp fyrir sér meðan á fyrirspurn Þorsteins stóð að það ætti sér væntanlega ekki fordæmi að þingmenn skiptu um fyrirspurn með þessum hætti. „Ég tek fram að þetta beinist á engan hátt að háttvirtum þingmanni Þorsteini Víglundssyni og hann frekar á hrós skilið fyrir hugkvæmnina að láta sér detta í hug að þetta væri hægt. Hann er eflaust upphafsmaður að því að á þetta reyndi,“ sagði Steingrímur. Hann sagði þó sjálfsagt að ræða málið í forsætisnefnd Alþingis og hvort breyta ætti óundirbúnum fyrirspurnum.

„Ég óttaðist mjög að ég hefði gert mistök,“ sagði Steingrímur. Hann sagði að hefðin væri að tilkynnt væri fyrirfram um ráðherra sem verða viðstaddir og skrá hvaða þingmenn spyrja hverra spurninga. Þess væri hins vegar gætt að ráðherrar vissu ekkert um spurningarnar fyrr en þær væru bornar upp í fundarsal Alþingis. Steingrímur sagðist telja að ef breytt væri út af þessu formi gætu óundirbúnir fyrirspurnatímar breyst í sérstaka umræðu um einstök mál sem beindust alfarið að einum ráðherra. 

Steingrímur tiltók að forseti tæki alltaf fram í upphafi hverrar fyrirspurnar að hvaða ráðherra fyrirspurnin beindist og uppskar hlátur með næstu orðum sínum. „Því það hefur komið fyrir eins og kunnugt er að ráðherrar hafi alls ekki tekið eftir því að verið var að beina til þeirra óundirbúinni fyrirspurn.“

Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi