Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

„Ég held að við þurfum að snúa aftur til Marx“

Mynd: Óðinn Jónsson / Internetið

„Ég held að við þurfum að snúa aftur til Marx“

04.05.2018 - 11:36

Höfundar

Laugardaginn 5.maí er þess minnst að 200 ár eru liðin frá fæðingu Karls Marx, eins áhrifamesta hugsuðar sögunnar - en um leið eins þess umdeildasta. Ottó Másson, heimspekingur og bóksali, ræddi arfleifð Karls Marx á Morgunvaktinni á Rás 1: „Ég tel hann einn magnaðasta og mikilvægasta hugsuð allra tíma. Ef við tölum um stóru heimspekingana, þá væri hann á plani með Platon, Aristóteles, Kant og Hegel.“

En Ottó Másson bætir við: „Um leið er það villandi, því Marx var ekki heimspekingur í hefðbundnum skilningi, meira pólitískur maður - alveg frá byrjun.“ Á Morgunvaktinni, degi fyrir 200 ára afmælið, ræddi Ottó mikilvægi Karls Marx, sérstaklega grundvallarrit hans, Das Kapital, eða Auðmagnið. „Þar er að finna greiningu á auðmagnsskipulaginu, sem ég held að ætti að vera grundvöllur greiningar á því enn þann dag í dag.“ Og hitt atriðið er leiðsögn Marx um það að stéttabaráttan leiði til sósíalisma.

Ríkisferlíki Sovétríkjanna og Kína samtímans ganga þvert á það sem Karl Marx hafði í hyggju. Sjónarmið hans og hugmyndir um ríkið eru enn mjög róttækar:  „Það er misskilningur að anarkistar einir stefni að því að rífa niður ríkisvaldið. Það var skoðun Marx. Hann vildi annars konar ríkisvald. Honum er ekki ljóst í byrjun hvernig það er útfært með tilliti til þess sem fyrir er. En hann sér fyrir sér ríkisvald sem hvílir á stéttarlegum grundvelli verkalýðsins. Í baráttunni gegn kapítalistunum verði til skipulag sem í rás baráttunnar vindur upp á sig og verður að lokum undirstaða nýs ríkis.“

Karls Marx fæddist í þýsku borginni Trier 5.maí 1818 og lést í Lundúnum 1883. Víða um heim er þess minnst að 200 ár eru liðin frá fæðingu þessa áhrifaríka hugsuðar. Ottó Másson telur arfleifð hans eiga fullt erindi við samtímann og í stjórnmálabaráttuna: 

„Mikilvægi Marx í mínum huga er að hann leggur grunn að pólitík sem við þurfum að halda áfram með. Ég sakna þess á Íslandi að menn taka það ekki nógu alvarlega,"

segir Ottó Másson og bætir við: „Ég held að við þurfum að snúa aftur til Marx, lesa hans rit og velta því fyrir okkur í hverju gildi þeirra liggur. Það getur skýrt margt fyrir okkur. Sjáum t.d. þessa rikisstjórn sem hér er sest að völdum. Hún byggir á þeirri grundvallarhugmynd að það sé hægt að laga eitt og annað í samfélaginu með því að fulltrúar vinnandi fólks, Vinstri-grænir, geti tekið saman höndum með fulltrúum auðstéttarinnar í landinu og þannig náð einhverju samkomulagi um að þoka hlutunum til betri vegar. Það mun ekkert slíkt gerast. Það sem gerist að sjálfsögðu er að ráðastéttin ræður því sem hún vill í þessari ríkisstjórn. Katrín Jakobsdóttir og hennar félagar eru í því að segja okkur hinum að vera róleg, vera ekki að ybba gogg, og vera með eitthvert baráttukjaftæði. - Það var ekki erfitt að sjá að þetta yrði nákvæmlega svona. Ef við förum aftur til Marx, þá er það eitt af hans grundvallar-prinsippum að verkalýðsstéttin á aldrei að vera taglhnýtingur borgaralegra afla í póltík."

Mynd með færslu
 Mynd: Óðinn Jónsson - Morgunvaktin
Ottó Másson, heimspekingur