Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Ég er það besta við pönkið segir Johnny Rotten

Mynd: RÚV / RÚV

Ég er það besta við pönkið segir Johnny Rotten

03.11.2016 - 13:32

Höfundar

„Ég er það besta sem pönkið gat af sér,“ segir Johnny Rotten, söngvari Sex Pistols. Hann er staddur hér á landi og opnaði Pönksafn Íslands í gær.

Reykjavík 1980. Svört föt verða einkennandi hjá stórum hópi ungs fólks, óvenjuleg hárgreiðsla og jafnvel hundaólar um hálsinn. En eins og flestallar uppreisnir endar pönkið nú á safni. Pönksafn Íslands var opnað í Bankastræti í Reykjavík í gær. „Við erum hérna á Núllinu, neðst í Bankastræti, við hliðina á Lækjarbrekku, á yfirgefnu klósetti,“ segir Guðfinnur Sölvi Karlsson, safnstjóri Pönksafns Íslands. 

Og það þurfti ekki minni mann er John Lydon, betur þekktur sem Johnny Rotten, úr hljómsveitinni Sex Pistols, til að opna safnið. Aðspurður hvort opnun safns um pönkið þýði að það hafi liðið undir lok svarar hann neitandi og þó. 

En hvað er það besta sem kom með pönkinu? „Ég,“ svarar Johnny. En hyggst hann spilar einhvern tímann hér á landi. „Á næsta ári, vona ég. Við erum að reyna það,“ svarar hann. 

En var ekkert mál að fá Johnny Rotten hingað til lands? „Jú það var tómt vesen, alls konar vesen sem fylgdi því. Eitt var að finna lúxusíbúð sem mátti reykja í,“ svarar Guðfinnur. 

Meðal muna í safninu er bassinn sem Bjarni móhikani braut í myndinni Rokk í Reykjavík. Þar er hægt að horfa á tónlistarmyndbönd, hlusta á plötur, finna Pachouli-lykt og svo leynist þar dós af Jötungripi. Einnig má grípa þar í hljóðfæri. 

Johnny segir mikilvægt að fagna lífinu. Hann hafi tvisvar verið hætt kominn. Fyrst þegar hann veiktist af heilahimnubólgu sem barn og svo þegar hann bókaði sig og frúnna með flugvélinni sem fórst yfir Lockerbie á Skotlandi en missti af vélinni. „Halló heimur hryðjuverka, sjáðu hverjum þú misstir af! - Endir,“ segir Johnny Rotten og batt þar með endi á spurningaflóð fréttamanns. 

Mynd: RÚV / RÚV