Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

„Ég er enn að skoða þetta“

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Andrés Ingi Jónsson og Rósa Björk Brynjólfsdóttir, þingmenn Vinstri grænna, segjast ekki enn vera búin að móta sér endanlega afstöðu til ríkisstjórnarsamstarfsins með Sjálfstæðisflokki og Framsóknarflokki. Andrés og Rósa greiddu atkvæði gegn því í þingflokknum að fara í formlegar stjórnarmyndunarviðræður við flokkana tvo.

Andrés segir að skoðun hans hafi í raun ekki breyst. „Hún er enn sú að ég skoða samstarfsyfirlýsinguna og tek afstöðu til hennar á flokksráðsfundinum á miðvikudaginn,“ segir Andrés.

Andrés fékk að sjá drög að málefnasamningnum um helgina. Hann segist þó ekki hafa náð að gera upp hug sinn enn.

„Ég náði ekki að rýna hann alveg nógu mikið til að geta mótað mér endanlega afstöðu. Ég er enn að skoða þetta,“ segir hann. Spurður hvort hann telji að drögin eigi eftir að taka miklum breytingum fram á miðvikudag segist hann ekki telja það. „Ég held að þetta hafi verið nokkuð endanleg útgáfa.“

Fegin að það var loksins boðaður þingflokksfundur

Rósa tekur í sama streng. „Ég hef sömu afstöðu til viðræðnanna og ég viðraði þá, þegar ég greiddi atkvæði gegn þeim á þingflokksfundinum,“ segir Rósa. „Varðandi ríkisstjórnarsamstarfið og málefnasamninginn þá læt ég afstöðu mína bara í ljós á flokksráðsfundinum á miðvikudaginn. Ég er enn að skoða málefnasamninginn,“ segir hún.

Þá segist hún ekki búast við að málefnasamningurinn sem hún hafi til skoðunar muni taka breytingum til miðvikudags. „Mér er sagt að svo verði ekki,“ segir hún.

„Ég er bara fegin að það var loksins boðaður þingflokksfundur í dag. Það hefur ekki verið haldinn fundur í tvær vikur,“ bætir hún við.