Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

„Ég er brjálaður yfir þessu“

04.04.2017 - 13:48
Frá þingsetningu 2016.
 Mynd: Eggert Þór Jónsson - RÚV
Gunnar Hrafn Jónsson, þingmaður Pírata, vandaði ríkisstjórninni ekki kveðjurnar við upphaf þingfundar í dag og sagðist vera brjálaður yfir þeirri ákvörðun að skammta samtökunum Hugarafli 1,5 milljónir króna. Gunnar sagði ekki hægt að verðleggja starf samtakanna - hann væri jafnvel ekki viss um hvort hann stæði í ræðustól Alþingis ef samtakanna hefði ekki notið við.

Hann sagði að með þessari ákvörðun væri verið að leika sér með mannslíf og þetta myndi leiða til þess að þetta fólk myndi enda inni í heilbrigðiskerfinu með enn frekari kostnaði. „Þetta er algjör svívirða,“ sagði Gunnar Hrafn sem krafðist þess að samtökin fengju á þessu ári jafnvirði árslauna þingmanns eða um þrettán milljónir króna og meira á næsta ári. 

Gunnar upplýsti jafnframt að hann ætlaði sér að mæta á mótmæli samtakanna fyrir utan velferðarráðuneytið sem eiga að hefjast klukkan 14.

Í tilkynningu frá Hugarafli í morgun kom jafnframt fram að félagsmálaráðherra hefði hafnað beiðni samtakanna um fjárstuðning. „Samtökin álíta þetta verulega móðgandi hegðun ráðherra og embættismanna þeirra og lýsir þessi framkoma í besta falli mikilli vanþekkingu á stærsta úrræði sem til er utan stofnana.“