„Ég elska“ þýðir að ég vilji að þú sért

Mynd:  / 

„Ég elska“ þýðir að ég vilji að þú sért

19.03.2019 - 16:56
Það að elska þýðir að ég lít svo á að þínar þarfir skipti að minnsta kosti jafn miklu máli og mínar. En hvernig sýnir maður þá sjálfsást? Nína Hjálmarsdóttir ræddi við Guðbrand Árna Ísberg, sálfræðing, í nýjasta þætti af Ástinni á mánudag.

„Þú sýnir ást með því að komast til móts við þarfir en þarfir eru það sem við þörfnumst til að vera í andlegu og líkamlegu jafnvægi,“ segir Guðbrandur. „En ef við hugsum um ástina sem það að koma til móts við þarfir þá þurfum við að aðgreina þarfir frá löngunum og fýsnum,“ bætir hann við. 

„Ef þú vilt sýna sjálfsást þá verður þú að sinna þörfum þínum.“

Upphaflega elskum við okkur sjálf því okkur er sýnd ást, yfirleitt af foreldrum okkar með því að koma til móts við þarfir okkar. Síðan getum við viðhaldið því og bætt á það en þá þarf maður að vera meðvitaður um þær. 

En hvað á fólk að gera til að finna sjálfsást? Guðbrandur segir að það sem er númer eitt, tvö og þrjú sé að passa samanburðinn, við erum auðvitað félagsverur og erum þar af leiðandi alltaf í samanburði. Hann segir hins vegar að ef við erum of mikið í ytri samanburði þá komum við sjaldnast vel út, við ættum frekar að temja okkur að bera okkur saman við okkur sjálf því þá upplifum við stolt.

Hlustaðu á viðtalið við Guðbrand í spilaranum hér fyrir ofan. Þátturinn í heild sinni er aðgengilegur í spilara ruvnull.is, í RÚV appinu og öllum helstu hlaðvarpsveitum.