Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Eftirvænting vegna komu forsetans til Sólheima

03.08.2016 - 08:30
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, fer í sína fyrstu heimsókn í embætti í dag en ferðinni er heitið til Sólheima í Grímsnesi. Tekið verður á móti forsetanum og eiginkonu hans, Elizu Reid, við Sesseljuhús klukkan 11.

Forsetahjónin munu skoða sýningar, vinnustofur og verkstæði á svæðinu og snæða hádegisverð með íbúum. Að því loknu verður samverustund í Sólheimakirkju. Á Facebook-síðu Sólheima segir að þar ríki eftirvænting vegna komu forsetans. Það sé heiður að Sólheimar séu fyrsti viðkomustaður forsetahjónanna.

Helgin er þéttskipuð hjá nýja forsetanum. Hann ætlar til Dalvíkur á Fiskidaginn mikla á föstudag. Þar flytur hann svokallaða Vináttukeðjuræðu og ætlar jafnframt að gæða sér á fiskisúpu og fara á tónleika með fjölskyldu sinni. Á laugardag brýtur hann svo blað í sögu Hinsegin daga og forsetaembættisins þegar hann verður fyrsti forsetinn sem flytur hátíðarávarp að lokinni Gleðigöngu Hinsegin daga.