Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Eftirlitsdróni prófaður yfir Egilsstöðum

18.04.2019 - 06:02
Í gær hófust tilraunir með mannlausa eftirlitsflugvél á Egilsstaðaflugvelli. Ef vel tekst til gæti Landhelgisgæslan notað slíkar vélar til að fylgjast með hafsvæðinu við Ísland og þær gætu jafnvel einnig nýst við björgunarstarf.

Þetta er dróni eða mannlaus flugvél af gerðinni Hermes 900 og er framleidd í Ísrael.  Nokkur spenna ríkti fyrir fyrsta flugið frá Egilsstaðavelli. Þar var nokkuð hvasst en vélin sem vegur rúmt tonn komst á loft engu að síður. 

Tilraunin er samstarfsverkefni Siglingaöryggisstofnunar Evrópu, og Landhelgisgæslunnar. Þó að vélin sé mannlaus fylgir henni um 20 manna teymi, þar á meðal flugmenn sem halda um taumana. Flugvélin hefur 15 metra vænghaf, getur flogið á 120 kílómetra hraða og drægnin er 800 kílómetrar. Hún getur því auðveldlega flogið að lögsögumörkum Íslands fyrir austan landið og til baka. Hún hefur afísingarbúnað og er búin myndavél, radar og búnaði sem greinir neyðarboð og sendir áfram til stjórnstöðvar Landhelgisgæslunnar. Flugvélinni er stjórnað í gegnum gervitungl og á jörðu niðri er talsverður búnaður sem tryggir öll sambönd. Hún verður reynd í sumar við löggæslu, leit og mengunareftirlit við Ísland. Tilraunirnar standa næstu þrjá mánuði og í tilkynningu segist Landhelgisgæslan spennt að sjá hvernig vél sem þessi nýtist við löggæslu og leit og björgun á hafinu umhverfis Ísland.

 

runarsr's picture
Rúnar Snær Reynisson
Fréttastofa RÚV