Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

EFTA samkomulag náðist um viðbrögð við Brexit

27.06.2016 - 12:21
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Lilja Alfreðsdóttir, utanríkisráðherra Íslands segir að samkomulag hafi náðst á ráðherrafundi EFTA ríkjanna í Bern um fyrstu viðbrögð þeirra vegna niðurstöðu þjóðaratkvæðagreiðslunnar í Bretlandi um úrsögn Breta úr Evrópuambandinu. Ísland tekur við forystu í EFTA fyrsta júlí.

Bretland er eitt helsta viðskiptaland allra EFTA ríkjanna og því mikilvægt að grípa til aðgerða til þess að koma í veg fyrir lagalegt tómarúm þegar útgöngusamningur Breta við ESB tekur gildi. 

Lilja Alfreðsdóttir utanríkisráðherra segir að samkomulag hafi náðst á ráðherrafundinum um tvo megin þætti vegna úrsagnar Breta. „Fyrst má nefna að við viljum eiga náið samráð til þess að viðhalda nánum, efnahagslegum og viðskiptalegum tengslum við Bretland enda eitt okkar allra mikilvægasta ríki, það er að segja allra EFTA-ríkjanna. Í annan stað þá lögðum við áherslu á að gera umfangsmikið hagsmunamat fyrir EFTA-ríkin þannig að EFTA sé tilbúið til viðræðna við bresk stjórnvöld þegar staðan skýrist þar í landi.“

Fram komu tillögur um að bjóða Bretum aðild að EFTA en ráðherrarnir  telja nauðsynlegt að gert verði fyrst hagsmunamat og  telja ótímabært að staðhæfa hvaða leiðir skili EFTA-ríkjunum bestum árangri. 

Á fundinum ræddi Lilja um mikilvægi góðs viðskiptasambands Íslands við Bretland og fagnaði áhuga EFTA-ríkjanna á að ráðfæra sig við hvert annað til að tryggja sem bestan árangur. 

Ísland tekur við forystu í EFTA þann 1. júlí.Samhliða  forystu  EES frá 1. júlí .Samband aðildarríkjanna við Bretland verður efst á baugi í formennskutíð Íslands í EFTA. „Ég lagði mikla áherslu á það að við skyldum fara í alla þá vinnu og að þetta sé algjört forgangsatriði hjá EFTA-ríkjunum.“