Efri hæð hússins gjörónýt eftir brunann

20.04.2019 - 18:42
Mynd: Kristinn Þeyr Magnússon / Kristinn Þeyr Magnússon
Efri hæð húss í Hafnarfirði er gjörónýt að hluta eftir eldsvoða seinni partinn í dag. Slökkvilið bjargaði fjórum úr logandi húsinu, en engan sakaði. Slökkvistarf stendur enn en er á lokametrunum.

Slökkvilið fékk tilkynningu um eldinn á fjórða tímanum og strax varð ljóst að hann var mikill og breiddist hratt út. Hann kviknaði í íbúð á efri hæð hússins, sem stendur við Dalshraun í Hafnarfirði, á bak við Húsasmiðjuna. Slökkvilið bjargaði fjórum úr húsinu og mátti ekki tæpara standa, en enginn hlaut alvarleg meiðsl. Reykkafarar þurftu að brjóta sér leið inn um glugga á efri hæðinni til að komast inn, reykurinn var mjög mikill og eldur logaði glatt. Fjölmargir fylgdust með slökkviliðinu að störfum, en svæðinu var síðar lokað. Húsið er fjölbýli og íbúðirnar á efrihæðinni eru leiguíbúðir eða hótelíbúðir, samkvæmt upplýsingum frá íbúum sem fréttastofa ræddi við.  Um klukkan fimm var slökkviliðið komið með stjórn á eldinum, sem þó var enn mikill. 

Vernharð Guðnason, deildarstjóri hjá slökkviliði höfuðborgarsvæðisins, sagði  slökkvistarf hafa gengið vel miðað við aðstæður. Í upphafi hafi fólk verið í hættu og áhersla var lögð á að koma því til bjargar og ganga úr skugga um að húsið væri autt.  Að hluta til hafi fólk komið sér út sjálft, en einhverjir hafi forðað sér út á þök og svalir og slökkvilið bjargað því þaðan. Jóhann segir að útlit sé fyrir að eldurinn hafi breiðst mjög hratt út en ekkert er vitað um eldsupptök enn sem komið er. 

sunnav's picture
Sunna Valgerðardóttir
Fréttastofa RÚV
solveigk's picture
Sólveig Klara Ragnarsdóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi