Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Efnavopnaárás og harðar loftárásir

05.02.2018 - 16:03
epaselect epa06496989 Syrian Arab Red Crescent (SARC) volunteers transport the injured to an ambulance near civilian buildings which were destroyed in airstrikes in Idlib City, Syria, 04 February 2018. The number of killed and wounded is unclear.
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Að minnsta kosti 20 hafa verið drepnir og 45 særðir í nótt og í dag í hörðum loftárásum sýrlenska stjórnarhersins og Rússa í Idlib-héraði sem er undir stjórn uppreisnarmanna í norðvestur-Sýrlandi. Loftárásir eru gerðar á íbúðarhverfi og á spítala.

Sýrlenski stjórnarherinn og Rússar hafa hert á hernaði sínum og jörðin er sögð nötra í borgum og bæjum. Sjónarvottar segja allt að 150 loftárásir hafi verið gerða á hálftíma í nótt. Rússar fari hamförum eftir að rússnesk Su-25  herflugvél var skotin niður yfir héraðinu í gær og flugmaðurinn drepinn.  Ekkert lát sé á loftárásunum í bænum Kafr Nabl,  þar hafi 12 heimili verið lögð í rúst. Harðar loftárásir hafa verið gerðar á íbúðarhverfi og spítala í Massaran, Khan al-Sabil, og Idlib borg. Fjöldi íbúa sé grafinn undir rústum húsa.

Samkvæmt heimildum björgunarsveitanna Hvítu hjálmanna voru harðar loftárásir gerðar á aðalsjúkrahúsið í Maarel al-Numan. Tíu sinnum hafi sprengjum verið varpað á spítalann sem sé illa laskaður og óstarfhæfur eftir árásina. Í héraðshöfuðborginni Idlib vörpuðu rússneskar herflugvélar sprengjum á íbúðarhverfi og sprengdu sjö hæða íbúðarblokk til grunna. Idlib er eitt af svokölluðum öruggum svæðum fyrir fólk samkvæmt samningi Rússa, Írana og Tyrkja og þar eru auk íbúanna tugir þúsund flóttamanna m.a. frá Aleppoborg.

Sýrlenski stjórnarherinn gerði í dag efnavopnaárás á bæinn Saraqeb  í Idlib-héraði.

Þyrla stjórnarhersins  er sögð hafa varpað tunnusprengju með klórgasi á bæinn. Að minnsta kosti tugur manna særðust í árásinni og voru fluttir á spítala vegna öndunarerfiðleika. Þar af nokkrir björgunarsveitarmenn sem komu á vettvang  og urðu fyrir gasinu.  

 

Þorvaldur Friðriksson
Fréttastofa RÚV