Athugið þessi frétt er meira en 8 ára gömul.

Efnahagur landsins er á réttri leið

07.08.2013 - 14:02
Mynd með færslu
 Mynd:
Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hefur lokið úttekt sinni á stöðu efnahagsmála á Íslandi fyrir árið 2013. Skýrsla sjóðsins um stöðu mála hér á landi kom út í dag.

Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn gerir árlega úttekt á efnahagslífi aðildarlanda sinna samkvæmt fjórðu grein Stofnsáttmála sjóðsins. Skýrslan nú er lokakaflinn í úttekt sjóðsins á Íslandi fyrir árið 2013. Þar kemur fram að efnahagur landsins sé á réttri leið. Það sé þó áhyggjuefni að hægt hafi á hagvexti. Hann hafi verið 2,9% árið 2011 en hafi verið 1,6% árið 2012. Atvinnuleysi hafi hins vegar minnkað, en það var 5,1% í maí samanborið við 9,2% þegar það var mest í september árið 2010.

Verðbólgan hafi verið 3,3% í júní, samanborið við 18,6% þegar hún fór hæst í janúar árið 2009. Verðbólgan sé hins vegar ennþá hærri en verðbólgumarkmið Seðlabankans, sem sé tvö og hálft prósent.

Þá eru blikur á lofti í ríkisfjármálum að mati sjóðsins. Allt stefni í að fjárlagahalli ársins 2013 verði meiri en áætlað var. Ástæða þess sé minni hagvöxtur, aukin útgjöld, lægri arðgreiðslur og minni eignasala en áætlað var. Þá sé alls óvíst að áætlanir um fjárlagahalla ársins 2014 standist vegna kostnaðarsamra kosningaloforða, svo sem um lækkun skatta og niðurfellingu húsnæðislána.

Þá lýsir sjóðurinn áhyggjum af því að afnám gjaldeyrishafta gangi hægt. Loks segir í skýrslunni að staða íslensku bankanna hafi batnað, en Íbúðalánasjóður sé hins vegar í erfiðri stöðu.