Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Efnahagsleg áhrif áætluð um 600 milljónir

27.05.2019 - 17:22
Mynd með færslu
 Mynd: Gunnlaugur Starri Gylfason - RÚV
Mikil ánægja ríkti þegar fyrsta flugvélin á vegum hollensku ferðaskrifstofunnar Voigt Travel frá Rotterdam lenti á Akureyrarflugvelli. Sextán ferðir verða farnar í sumar og er von á um 2.200 farþegum. Vonast er til þess að með tíð og tíma verði þetta að reglulegu millilandaflugi til Akureyrar.

Arnheiður Jóhannsdóttir framkvæmdastjóri Markaðsstofu Norðurlands segir að með þessum ferðum opnist nýr markaður fyrir Norðurland. Fólk sem annars hefði ekki komið nýti sér þetta beina flug. Þetta fólk dreifi sér vel um svæðið og kaupi þjónustu af stórum sem smáum fyrirtækjum. Efnahagsleg áhrif af þessum ferðum á svæðið eru áætluð um 600 milljónir króna. 

Vill auka samvinnu milli ferðaþjónustufyrirtækja

„Undirbúningur þessa verkefnis hefur tekið tvö ár en unnið hefur verið markvisst að því að fá millilandaflug hingað síðan árið 2011,“ segir Arnheiður. Voigt Travel hafi aðstoðað ferðaþjónustufyrirtæki og haldið námskeið til að búa þau undir komu sinna viðskiptavina sem staldri gjarnan lengur við en hinn almenni ferðamaður eða í tvær til þrjár vikur. Hún segir að það helsta sem þurfi að bæta sé samvinna ferðaþjónustufyrirtækja. Þá þurfi öflugar ferðaskrifstofur sem geti tekið við og stýrt hópum og heilsársstörf svo fólk sé alltaf tilbúið og vel þjálfað. Cees van den Bosch framkvæmdastjóri Voigt Travel segir undirbúninginn hafa gengið mjög vel. Samstarfið við alla - heimamenn, fyrirtæki og stofnanir hafi gert ferlið töluvert auðveldara fyrir þau.

Helgarferðir til Amsterdam

Verkefnið fer vel af stað og og eru bókanir hér um bil á pari við væntingar. Cees van den Bosch segir að þetta sé langtímaverkefni og að eftir tvö ár geti þau vonandi sagt að uppselt sé í ferðirnar. Áhugi á Íslandi sé mikill og það auki áhuga enn frekar að hafa upp á eitthvað nýtt að bjóða eins og beint flug til Norðurlands. Í tilefni þessa fyrsta flugs var hátíðleg athöfn í Flugsafni Íslands í morgun. Þar tilkynnti Cees van den Bosch að Voigt Travel ætli að standa fyrir ferðum frá Amsterdam til Akureyrar í vetur. Farnar verði átta ferðir á fjögurra vikna tímabili, á mánudögum og föstudögum sem hefjast 14. febrúar. Fyrirtækið hefur mikla reynslu af vetrarferðum og sérhæfir sig í ferðum til Norður-Evrópu. Hann segir Hollendinga áhugasama íslenskan vetur, norðurljósin og ævintýri út í náttúrunni.

Arnheiður telur mikla þörf fyrir þessar ferðir þar sem gistiheimili og aðrir innviðir standi oft tómir yfir vetrartímann. Þetta sé skref í þá átt að ná að halda stöðugu rennsli ferðamanna yfir allt árið. Ekki skemmi heldur fyrir að Norðlendingar geti skellt sér í helgarferð til Amsterdam. Þaðan séu líka tengingar út í heim sem skapi mikla möguleika fyrir okkur.

Skipti máli að lenda á Akureyri

Mariska Hoogenboom er ein þeirra sem komu með flugvélinni í morgun. Þetta er hennar fyrsta ferð til Íslands. Hún ætlar að vera hér í viku og vonast til þess að sjá eldfjall og Mývatn. Hún er með bílaleigubíl og ætlar að keyra vítt og breitt um landið og gista í tjaldi. Hún segir það skipta sig miklu máli að flugið hafi lent á Akureyri því hana hafi langað til að sjá landið og fara í hvalaskoðun. Þá telur hún mjög líklegt að hún hefði aðeins skoðað svæðið í kringum Reykjavík ef hún hefði lent í Keflavík.