Efnafræðikennarar ákærðir fyrir metamfetamínframleiðslu

18.11.2019 - 04:30
Mynd með færslu
 Mynd: AP
Tveir efnafræðikennarar við háskóla í Arkansas voru nýverið handteknir og ákærðir fyrir framleiðslu á metamfetamíni. Kennararnir, þeir Terry Bateman og Bradley Rowland, eru báðir á fimmtugsaldri og störfuðu við Henderson State University, um 3.500 manna skóla í Arkadelphia, rúma 100 kílómetra frá Little Rock.

Í tilkynningu frá fógetaembættinu í Clarksýslu segir að þeir hafi báðir verið ákærðir fyrir framleiðslu á metamfetamíni og notkun áhalda og tækja sem tengjast eiturlyfjaframleiðslu og -neyslu.

Í frétt New York Times segir að kennararnir hafi verið skikkaðir í leyfi frá skólanum hinn 11. október, þremur dögum eftir að raunvísindadeild skólans var lokað vegna tilkynningar um sterkan og torkennilegan kemískan fnyk sem illa gekk að rekja til uppruna síns. Rannsókn leiddi í ljós óvenju- og óeðlilega mikil ummerki um bensýlklóríð á tilraunastofu efnafræðideildarinnar. Bensýlklóríð er notað við framleiðslu á hinum margvíslegustu hlutum og efnum, þar á meðal metamfetamíni.

Talskona skólans vildi ekki staðfesta það við blaðamann New York Times, hvort það var bensýlklóríðfnykurinn sem kom lögreglunni á spor tvímenninganna, sem gárungar vestra líkja nú við hinn alræmda Walter White, aðalpersónu verðlaunasjónvarpssyrpunnar Breaking Bad.

Fógetaskrifstofan svaraði heldur ekki fyrirspurn blaðsins um þetta efni, en tvímenningarnir verða leiddir fyrir dómara innan skamms. Batemann var heiðraður fyrir tíu ára gott og gjöfult starf við Hendersonháskólann í apríl á þessu ári. 
 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi