Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Efling telur engan vafa á ábyrgð Eldum rétt

07.07.2019 - 14:41
Mynd með færslu
 Mynd:
Verkalýðsfélagið Efling segir engan vafa leika á því að Eldum rétt beri að axla keðjuábyrgð vegna brota á starfsmönnum starfsmannaleigunnar Menn í vinnu sem fyrirtækið leigði. Ólöglega hafi verið dregið af launum þeirra og þeir beittir nauðung og vanvirðandi meðferð.

Efling stefndi Eldum rétt í júní um endurgreiðslu launa og ólögmæts frádráttar, auk miskabóta fyrir meinta nauðung og vanvirðandi meðferð sem mennirnir höfðu mátt þola en þeir eru frá Rúmeníu.

Stefnan var birt Eldum rétt, Mönnum í vinnu og forsvarsmönnum Manna í vinnu og svo lögð fram í Héraðsdómi Reykjavíkur þann 27. júní segir í yfirlýsingu frá Eflingu.

Í fyrra voru gerðar breytingar á lögum um keðjuábyrgð sem felur í sér að notendafyrirtæki bera ábyrgð að starfsmenn sem vinna fyrir þau en eru leigðir af starfsmannaleigum njóti lög- og kjarasamningsbundinna lágmarkskjara.

Engin vafi á ábyrgð að mati Eflingar

Efling telur engan vafa á því að Eldum rétt beri keðjuábyrgð á þeim starfsmönnum sem fyrirtækið leigði frá Menn í vinnu. Í stað þess að axla þá ábyrgð hafi fyrirtækið „ kosið að taka upp sömu málsvörn og Menn í vinnu, nefnilega að samningarnir sem verkamennirnir undirrituðu hafi leyft frádrátt af launum.“ Að mati félagsins eru slíkar heimildir í kjarasamningunum „vægast samt hæpnar.“

„Að mati Eflingar voru þessar heimildir hannaðar eingöngu til að bjóða upp á misnotkun, svo sem alþjóð varð vitni að í fréttum af uppgjöri fyrirtækisins við starfsmennina í febrúar – þar sem verkamönnunum var hent peningalausum úr iðnaðarhúsnæðinu sem þeir höfðu verið látnir leigja. Þær upphæðir sem dregnar voru af mönnunum vegna húsaleigu voru enn fremur úr öllu samhengi við veruleikann, jafnvel að teknu tilliti til hás leiguverðs á höfuðborgarsvæðinu“, segir í yfirlýsingu Eflingar.

Laun mannanna eftir frádrátt hafi ekki verið greidd möglunarlaust og þurfti einn þeirra að bíða til febrúarloka eftir launum fyrir vinnu sem innt var af hendi 1.-15. janúar.

„Í þessu máli hefur Eldum rétt, eitt notendafyrirtækja, kosið að líta fram hjá illri meðferð Manna í vinnu á starfsfólki sínu og lýst sig lagalega stikkfrí. Öllum kröfum var hafnað í byrjun og aðeins gengist við allra þrengsta skilningi keðjuábyrgðar nú, með áþekkum rökum og Menn í vinnu hafa haldið fram.“